Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 10:40:44 (647)

2003-10-16 10:40:44# 130. lþ. 12.9 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[10:40]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar á sér langa sögu og er ekki óeðlilegt að menn vilji halda því formi sem hér hefur ríkt um áratuga skeið jafnvel þótt tímarnir hafi breyst mjög sem raun ber vitni um. Þannig háttaði til að á 123. löggjafarþingi 1998/1999 lagði ég fram tvö frumvörp varðandi Happdrætti SÍBS og Happdrætti DAS þar sem tillagan gekk út á það að lagabreyting yrði með þeim hætti að þau happdrætti fengju einnig leyfi til þess að greiða út vinninga í peningum. En þessi tvö happdrætti hafa unnið þjóðfélaginu þarft verk í gegnum árin og áratugina, aflað fé til bættra lífsgæða, endurhæfingar þeirra sem lent hafa í slysum og veikindum og til að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

Það má segja að á því herrans ári 2003 skjóti nokkuð skökku við að enn skuli vera flutt frv. um Happdrætti Háskóla Íslands þar sem framlengt er leyfi til einkaleyfis á þessu sviði. Þegar þetta mál kom til umræðu í hv. allshn og hún hafði fjallað um málið, sagði m.a. svo, með leyfi forseta, í greinargerð frá nefndinni vegna þessa máls:

,,Nefndin hefur skilning á vanda umræddra happdrætta og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvörpunum, en þar sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur nú einkarétt á peningahappdrætti samkvæmt lögum nr. 13/1973, með síðari breytingum, telur nefndin ekki unnt að leggja til að þau verði samþykkt. Nefndin telur eðlilegt að happdrættismarkaðurinn í heild verði tekinn til skoðunar og að sett verði ein heildarlög um happdrætti og leggur til að málunum verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Þetta er sem sagt niðurstaðan sem hæstv. dómsmrh. var að fylgja hér úr hlaði. En síðan þetta álit allshn. kom fram hefur líka komið fram álit Samkeppnisstofnunar vegna þess að þessi happdrætti undu ekki við þessa niðurstöðu og var málinu vísað til Samkeppnisstofnunar. Þar kemur m.a. fram að ekki er allt sem sýnist. Með leyfi forseta, vildi ég aðeins vitna til álits Samkeppnisstofnunar frá 9. maí árið 2000. Þar segir svo:

,,Aðgangur að happdrættismarkaðnum er ekki frjáls. Vilji löggjafarvaldsins á hverjum tíma ræður því hverjir fá að reka happdrætti og hvernig tekjum er skipt í vinninga, leyfisgjöld og ágóða. Leyfi er veitt fyrir rekstri happdrættanna með tilliti til þeirra markmiða löggjafarvaldsins að afla fjár til almannaheilla án opinbers rekstrar. Happdrættin, sem starfa samkvæmt núgildandi sérlögum, ættu að mati samkeppnisráðs að njóta jafnræðis hvað varðar skilmála fyrir rekstrinum, þannig að virk samkeppni geti þróast á milli þeirra. Vinningshafar vöruhappdrættanna þurfa að hafa fyrirhöfn og væntanlega kostnað af því að koma vinningum sínum í peninga. Það er því óhagkvæmt fyrir neytendur og getur gert vinninga verðminni í hendi vinningshafa heldur en efni standa til. Einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands til þess að greiða vinninga út í peningum gefur happdrættinu samkeppnislegt forskot gagnvart vöruhappdrættunum og torveldar frjálsa samkeppni á markaðnum. Einkaleyfið fer því gegn markmiðum samkeppnislaga.``

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta, herra forseti, en mun að sjálfsögðu koma þessu máli og skoðunum Samkeppnisstofnunar til allshn. og vænti þess þá að hún hafi úr öðru að spila en því sem áður var í ljósi þess og með tilliti til þess sem hér hefur komið fram.