Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 10:52:08 (649)

2003-10-16 10:52:08# 130. lþ. 12.9 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Já, það er eðlilegt að hv. þingmenn ruglist í því hvaða embættum viðkomandi þingmenn gegna í ríkisstjórninni í það og það skiptið. Hér erum við auðvitað að ávarpa hæstv. dómsmrh. sem til skamms tíma gegndi ráðherraembætti í öðru ráðuneyti, nefnilega menntmrn. Því skyldi maður ætla að hæstv. ráðherra, Björn Bjarnason, sé vel kunnugur þeim málum sem hér er verið að fjalla um, bakgrunni þeirra, og þekki vel þær áhyggjur sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lýsti hér varðandi hið tvöfalda siðgæði sem ríkir í veröld happdrætta á Íslandi.

Nú er það alkunna að happdrætti og peningahappdrætti Háskóla Íslands hefur verið mjög öflugur bakhjarl ákveðinna rekstrarþátta háskólans, þ.e. bygginga og kostnaðar við nýbyggingar og framkvæmdir hjá háskólanum. Auðvitað hefði enginn okkar sem sitjum í þessum sal viljað skerða möguleika Háskóla Íslands til þeirra framkvæmda sem um ræðir. Hins vegar höfum við vaxandi áhyggjur af því siðferði sem verið er að nýta sér eða sem kemur í ljós þar sem happdrættisreksturinn hefur dregið fram í dagsljósið ákveðnar skuggahliðar í mannlífinu. Hann hefur dregið fram í dagsljósið gífurlega alvarlega persónulega harmleiki sem tengjast spilafíkninni.

Þegar við ræðum þetta mál verðum við að skoða ofan í kjölinn hvort við viljum taka þessa siðferðilegu ábyrgð sem við óneitanlega stöndum að með heimildum Háskóla Íslands til happdrættisrekstrar. Ég held líka að við verðum að ræða þetta mjög yfirvegað og hún er fullkomlega eðlileg spurningin sem sá hv. þm. sem talaði á undan mér bar upp til hæstv. dómsmrh., þ.e. hvort ríkisstjórnin hafi í alvöru hugað að því að til væru aðrir möguleikar fyrir Háskóla Íslands til að afla fjár til þeirra framkvæmda sem happdrættið hefur hingað til fjármagnað.

Ég held líka að eðlilegt sé að við ræðum í umfjöllun um þetta mál almenn sjónarmið varðandi peningahappdrætti og ræðum ofan í kjölinn þau mál sem hafa komið upp í samfélaginu og hafa verið mjög fyrirferðarmikil í fjölmiðlum síðustu árin. Ég held að það sé eðlilegt að þingheimur taki á þessum málum núna þegar tækifæri gefst til og að við skoðum siðferðistilfinningu okkar gagnvart þessu ofan í kjölinn. Við getum þá um leið talað um þær aðferðir sem ríkisvaldið hefur til þess að styðja við bakið á því fólki sem lendir í þeim harmleik sem getur stafað af spilafíkn. Við verðum að viðurkenna ábyrgð okkar í þessum efnum, gangast við henni og vera ófeimin við að ræða hana um leið og við ræðum tæknilega um peningahappdrætti og einkaleyfi Háskóla Íslands á slíkum rekstri.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram, herra forseti. Ég geri ráð fyrir að allshn. fái þetta mál til umfjöllunar og að þar verði farið djúpt ofan í saumana á því. En ég tel eðlilegt að við skoðum þessa hlið málsins, þ.e. hina siðferðilegu, um leið og við skoðum hina tæknilegu.