Talnagetraunir

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:17:53 (656)

2003-10-16 11:17:53# 130. lþ. 12.10 fundur 141. mál: #A talnagetraunir# (framlenging rekstrarleyfis) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins af þessu tilefni segja að ég er ekki að flytja frv. um að breyta því hverjir koma að þessum málum og hafi tekjur af slíkri starfsemi. Eins og ég sagði eru það Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands. Um þetta var samið hér á Alþingi á sínum tíma og gengið frá því að þau samtök mundu koma á fót samtökum sín á milli til þess að reka þetta og eins og ég sagði heitir það félag Íslensk getspá. Eignarhlutföll aðildarfélaganna eru þau að Íþrótta- og ólympíusambandið á 46,67%, Öryrkjabandalagið 40% og Ungmennafélag Íslands 13,33%. Vinningar í þeim getraunum eru greiddir út í peningum eins og við vitum og sala á lottói hófst 22. nóv. 1986, en frá því að sú starfsemi hófst hafa nokkrar breytingar verið gerðar á henni og flestar hafa verið gerðar með reglugerðarbreytingum.

Í október 1995 hóf göngu sína nýr leikur, Kínó. Hann var starfræktur í 17 mánuði en þá var sölu á honum hætt vegna ónógrar þátttöku. Í mars 1993 hófst samstarf með hinum Norðurlöndunum um Víkingalottó, Jóker með laugardagslottóinu var hleypt af stokkunum í apríl 1998 og með Víkingalottói í september 2001. Áskriftarsala á lottómiðum hófst í október 1998 en frá því í maí á þessu ári hefur almenningi gefist kostur á að kaupa lottó á netinu.

Ef við lítum á tekjur af miðasölu Íslenskrar getspár og skoðum tvö síðustu ár voru tekjurnar 1.197 millj. kr. árið 2001 og þar af fóru 479 millj. kr. í útdregna vinninga en tekjuafgangurinn var 385 millj. kr. Á síðasta ári voru tekjur af starfseminni 1.818 millj. kr., útdregnir vinningar voru 790 millj. kr. og tekjuafgangurinn 618 millj. kr. Ég tel að þessar upplýsingar eigi erindi inn í umræðuna og gagnlegt fyrir þingmenn og allshn. að vita af þessum tölum og sjá hve miklu máli þetta skiptir fyrir þá aðila sem koma að máli.

Herra forseti. Ef ég má enn og aftur vísa til reynslu minnar sem menntmrh. þá sagði ég oft þegar um þessi mál og fjárstuðning til íþróttahreyfingarinnar var rætt að menn mættu ekki gleyma því að ríkisvaldið og Alþingi með lögum eins og þeim sem við fjöllum um núna veitir þessum aðilum sérstaka stöðu sem þeir hafa til að afla sér fjár og á síðasta ári var heildartekjuöflunin eins og ég sagði 1.818 millj. kr. og nettótekjurnar 618 millj. kr. sem skiptir auðvitað miklu fyrir þá aðila sem hér eiga hlut að máli.