Talnagetraunir

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:21:03 (657)

2003-10-16 11:21:03# 130. lþ. 12.10 fundur 141. mál: #A talnagetraunir# (framlenging rekstrarleyfis) frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:21]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að leggja fram þetta frv. um talnagetraunir og vil að það komi fram í upphafi umræðunnar að sem stjórnarformaður í hússjóði Öryrkjabandalagsins er málið mér ekki alveg óskylt og ljóst að við hjá Öryrkjabandalaginu njótum sérstaklega góðs af frv. og ber að skoða orð mín í því ljósi.

Það hefur um nokkurt skeið verið fyllilega tímabært að lögin um talnagetraunir yrðu framlengd. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þarf að ráðast í endurnýjun á tækjabúnaði og aðra slíka hluti og því brýnt að frv. nái sem fyrst fram að ganga og ánægjulegt að nýr dómsmrh. hefur gengið beint í það verk.

Rétt er að halda því til haga hér í sölum Alþingis að fyrir síðustu alþingiskosningar gengu þeir aðilar sem að lottóinu standa, þ.e. Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands, eftir því við alla stjórnmálaflokkana hver afstaða þeirra væri til þess að framlengja á þennan hátt lögin um talnagetraunir og gengu sérstaklega eftir því hvort flokkarnir, hver fyrir sig, styddu það að lög þessi yrðu eins og hér er lagt til, að þau verði framlengd í óbreyttri mynd með sama hætti og verið hefði. Rétt er að benda hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur á að allir þeir stjórnmálaflokkar sem nú eiga sæti á Alþingi, þar með talin Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, lýstu því yfir í aðdraganda kosninganna að þeir styddu framlengingu á lögunum og þessari starfsemi með þeim hætti sem hún hefur verið. Við höfum þess vegna treyst því að þau orð mundu ganga eftir.

Hins vegar er full ástæða til að taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að auðvitað getur menningarstarfsemi og ýmisleg æskulýðsstarfsemi átt það skilið að hafa aðgang að einhvers konar happdrættistekjum en ég hygg að þá sé fyrst og fremst til þess að horfa að slík samtök hafi sjálf frumkvæði að því að koma á fót starfsemi af því tagi frekar en að verið sé að togast á um þá starfsemi sem fyrir er.

En það er engum blöðum um það að fletta að þetta fé hefur nýst m.a. okkur í Öryrkjabandalaginu gríðarlega vel frá því að Oddur heitinn Ólafsson lagði af stað í þann leiðangur fyrir einum 20 árum að koma upp hinum vinsæla laugardagsleik okkar. Það er nú orðið svo að íbúðir sem hússjóður Öryrkjabandalagsins hefur komið upp um land allt eru 609 talsins á þessum tiltölulega stutta tíma og veita auðvitað mikilvæga úrlausn fyrir fjöldann allan af fólki sem býr við örorku og lágar tekjur og þarf á að halda ódýru og öruggu íbúðarhúsnæði, fyrir utan auðvitað að þessi starfsemi hefur skilað verulegum fjármunum til íþrótta- og ungmennahreyfingarinnar og þar skilað því ágæta starfi til heilsubótar og eflingar íþróttaanda í landinu.