Mannréttindasáttmáli Evrópu

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:24:52 (658)

2003-10-16 11:24:52# 130. lþ. 12.11 fundur 142. mál: #A mannréttindasáttmáli Evrópu# (13. samningsviðauki) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:24]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu. Frumvarp þetta er lagt fram vegna fyrirhugaðrar fullgildingar nýs samningsviðauka, 13. viðauka er kveður á um afnám dauðarefsingar í öllum tilvikum. Lagabreytingar þær sem frv. mælir fyrir um varða eingöngu formsatriði en ekki efnisatriði.

Þegar mannréttindasáttmálinn, þ.e. samningur um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóv. 1950 var fullgiltur á Alþingi haustið 1951 þótti ekki ástæða til að breyta lögum því að reglur samningsins voru taldar grundvallarréttindi sem fælust þegar í meginreglum íslenskra laga. Tíminn leiddi síðar í ljós að nokkurt misræmi var milli íslensks landsréttar og ákvæða sáttmálans og fóru þá að heyrast þær raddir hvort ekki bæri að lögfesta samninginn.

Á Alþingi 1994 var tekin sú ákvörðun að lögfesta samninginn í heild sinni ásamt viðaukum hans. Er það í fyrsta og eina skiptið sem mannréttindasamningur hefur verið lögtekinn með þessum hætti hér á landi. Til samræmis við þá framkvæmd sem fylgt hefur verið síðan er hér sami háttur hafður á.

Samningsviðauki nr. 13 kveður á um afnám dauðarefsingar í öllum tilvikum. Þrátt fyrir að rétturinn til lífs sé verndaður með lögum í öllum ríkjum heims sem og í alþjóðasamningum hefur sú vernd ekki verið án undantekninga. 2. gr. mannréttindasáttmálans kveður á um að réttur hvers manns til lífs skuli verndaður með lögum og að engan mann skuli af ásettu ráði svipta lífi nema sök sé sönnuð og fullnægja skuli refsidómi á hendur honum fyrir glæp sem dauðarefsingu varðar að lögum.

Í tímans rás hafa viðhorf til dauðarefsinga breyst nokkuð og árið 1982 voru undanþágur 2. gr. mannréttindasáttmálans þrengdar til muna með tilurð 6. samningsviðauka en hann kvað á um afnám dauðarefsingar á friðartímum. Viðaukinn var fyrstur alþjóðasamninga í sögunni til að öðlast gildi sem kvað á um afnám dauðarefsingar á friðartímum án þess að nokkrar undanþágur eða fyrirvarar væru heimilir.

Eftir að 6. viðauki öðlaðist gildi hélt þróunin áfram í þá átt að afnema með öllu dauðarefsingu.

13. viðauki leit svo dagsins ljós í byrjun síðasta árs og ég mun ekki orðlengja nánar um tilurð hans heldur vísa til grg. með frv. í því sambandi.

Eins og ég gat um áður er ekki um efnisbreytingar á íslenskum rétti að ræða því að dauðarefsing var numin úr lögum árið 1928 og þá hafði henni ekki verið beitt í nær 100 ár. Með breytingum sem gerðar voru á stjórnarskránni árið 1995 var svo lögfest ákvæði þess efnis að í lögum mætti aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu. Ákvæði þetta var mun afdráttarlausara og gekk mun lengra en ákvæði í alþjóðlegum mannréttindasamningum á þeim tíma en hér þótti það eðlilegt og í samræmi við íslenska réttarvitund.

13. viðauki öðlaðist gildi að þjóðarrétti 1. júlí á þessu ári þegar tíu ríki höfðu fullgilt hann. Í dag hafa 19 ríki af 45 fullgilt hann. Með fullgildingu viðaukans er aukið enn frekar á þá vernd sem stjórnarskrá okkar veitir borgurunum auk þess sem íslenska ríkið sendir með henni skýr skilaboð út í alþjóðasamfélagið um hvaða augum það lítur dauðarefsingar. Utanrrh. mun síðar á þessu þingi flytja þáltill. til fullgildingar samningnum.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.