Framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 11:37:23 (661)

2003-10-16 11:37:23# 130. lþ. 12.13 fundur 15. mál: #A framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Ég flyt hana ásamt hv. þm. Samf. Margréti Frímannsdóttur, Helga Hjörvar, Bryndísi Hlöðversdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur, Guðrúnu Ögmundsdóttur, Björgvin G. Sigurðssyni, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur.

Samf. setti jafnrétti kvenna og karla á oddinn í síðustu kosningabaráttu. Í stefnuskrá Samf. kemur fram að komist hún til áhrifa eftir kosningar verði fyrsta mál á dagskrá að vinna að leiðréttingu á kjörum og starfsframa kvenna hjá hinu opinbera. Tillaga sú sem hér er mælt fyrir er flutt í samræmi við þessa stefnu þar sem sérstaklega er tekið á launamisrétti kynjanna.

Tillagan felur í sér að ríkisstjórnin láti undirbúa framkvæmdaáætlanir til 6 ára með það að markmiði að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Framkvæmdaáætlanirnar verði tvær, annars vegar fyrir opinberan vinnumarkað og hins vegar fyrir almennan vinnumarkað. Þær skulu unnar eftir föngum í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga og í þeim skal sett fram tímaáætlun um aðgerðir. Beitt verði ákvæði 22. gr. jafnréttislaga um jákvæða mismunun, að undangenginni rannsókn á launamun kynjanna og öðrum þáttum launakjara, sbr. 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Greina skal uppbyggingu launakerfa og kjarasamninga með tilliti til kerfislægrar mismununar.

Í tillögunni kemur fram að þessar framkvæmdaáætlanir eigi að leggja fyrir Alþingi haustið 2004 og að á tveggja ára fresti fram til ársins 2010 eigi fjmrh. í samráði við félmrh. að leggja fyrir Alþingi skýrslu um framvindu mála.

Herra forseti. Flestir þekkja til þess að þrátt fyrir að ítrekað hafi verið sett lög um jafnrétti kynjanna --- fyrstu heildarlögin voru sett 1961 um launajöfnun karla og kvenna --- er enn langt í land með að við búum hér við launajafnrétti. Þessum fyrstu jafnréttislögum sem voru sett fyrir 40 árum hefur margsinnis verið breytt til þess að skerpa og herða öll ákvæði þeirra og gera þau virkari, m.a. ákvæðið um launajafnréttið. Á árinu 1973 voru samþykkt lög um jafnlaunaráð. Með þeim var lögfest ákvæði um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og um að atvinnurekendum væri óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Lög um jafnrétti kvenna og karla voru síðan sett árið 1976. Þeim var aftur breytt árið 1985 og þá var heiti þeirra breytt í lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Með þeim lögum kom m.a. inn ákvæði um jákvæða mismunun þess efnis að sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna gangi ekki gegn lögum. Árið 1991 voru síðan aftur sett heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og þá var enn hert á ákvæðum jafnréttislaga, m.a. með því að kveðið var sérstaklega á um að tilgangur laganna væri að bæta sérstaklega stöðu kvenna til að ná fram jafnrétti.

Á 125. löggjafarþingi 1999--2000 voru enn á ný sett heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í 14. gr. laganna kemur fram að konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Á það er einnig hægt að benda að Ísland hefur fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100/1951 þar sem kveðið er á um jöfn laun karla og kvenna en með fullgildingu á þessari samþykkt skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að fylgja samþykktinni. Auk þeirra breytinga á jafnréttislögum sem áður hefur verið getið hafa ýmsar leiðir verið reyndar til að ná fram jafnrétti kynjanna, ekki síst í launamálum. Má þar m.a. nefna starfsmat, auk þess sem gerðar hafa verið ótalmargar launakannanir sem allar staðfesta mikinn launamun kynjanna.

Vissulega hefur nokkuð þokast í rétta átt, herra forseti, við að að ná fram launajafnrétti. Það má benda á að allt frá 1986 hafa ríkisstjórnir sett fram framkvæmdaáætlanir um jafnrétti, ráðuneytum og ríkisstjórnum verið falið að setja sér jafnréttisáætlanir og unnið hefur verið að starfsmati, m.a. á vegum norræna jafnlaunaverkefnisins sem var álitið veigamikið skref til launajafnréttis. Auk þessa hafa konur með eftirminnilegum hætti vakið athygli á misjöfnum kjörum kvenna og karla og ber þar hæst kvennafrídaginn 1975.

Herra forseti. Þetta stutta yfirlit sýnir að ekki vantar lög, ekki vantar reglur, ekki vantar alþjóðasamþykktir sem Ísland hefur undirgengist og því er það ótrúlegt hve langt er í land með að launajafnrétti náist fram.

Það er mjög sérstakt að launamunurinn er ekki síður í opinbera geiranum heldur en í hinum almenna. Það ætti að vera verkefni stjórnvalda og einstakra ráðherra að sjá til þess að jafnréttislögunum sé framfylgt á hinum opinbera markaði. Það er mikilvægt að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og virði lög og alþjóðasamþykktir og það er afar mikilvægt að fjmrh. sem viðsemjandi opinberra starfsmanna sýni frumkvæði og ábyrgð í verki með því að beita sér fyrir markvissri áætlun um að koma á launajafnrétti kynjanna, bæði í gegnum kjarasamninga við opinbera starfsmenn og með eftirliti með því að opinberar stofnanir og ráðuneyti fylgi markvissri jafnréttisáætlun um að allar starfstengdar greiðslur og/eða hlunnindi sem kveðið er á um í 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gangi jafnt til kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Herra forseti. Það er ekki síst ástæða til þess að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi þegar um er að ræða að við búum við tvöfalt launakerfi, annars vegar almenna kjarasamninga og hins vegar einstaklingsbundna ráðningarsamninga sem fara vaxandi og hvers konar duldar greiðslur, álög og starfstengdar greiðslur sem orðnar eru stór hluti af kjörum fjölda launþega.

[11:45]

Sama ætti að gilda um forsvarsmenn sveitarfélaga. Þeim ætti að vera skylt að sjá til þess að ákvæðum laga um launajafnrétti kynjanna sé framfylgt, refjalaust.

Á það skal jafnframt bent að þótt stofnunum og ráðuneytum beri lagaskylda til að gera jafnréttisáætlanir, hafa þær ekki reynst það stjórntæki sem til var ætlast til að stuðla að jafnrétti m.a. í launamálum. Þar skortir allt markvisst eftirlit og eftirfylgni með því að stofnanir og ráðuneyti framfylgi jafnréttisáætlunum sínum. Ég þekki það vel sem fyrrv. félmrh. að það er erfitt að ganga á eftir einstökum fagráðuneytum að þau framfylgi því að undirstofnanir þeirra framfylgi jafnréttisáætlunum.

Ég sé að hæstv. félmrh. er genginn í salinn og er viðstaddur þessa umræðu. Ég fagna því og vona að hæstv. ráðherra taki þátt í umræðunni. Það er afar mikilvægt þegar við setjum fram þessa tillögu, sem við teljum að miklu máli skipti, ef hún nær fram að ganga, til þess að stuðla að launajafnrétti, að við heyrum afstöðu hæstv. ráðherra til hennar og hvað sé á döfinni í ráðuneyti hans til þess að framfylgja launajafnrétti kynjanna.

Mín skoðun er sú, herra forseti, að þessu verði ekki náð fram nema með því að beita ákvæði um jákvæða mismunun. Það er einmitt lagt til í þeirri tillögu sem ég mæli hér fyrir. Í grg. með frv. er ákveðinn kafli þar sem fjallað er ítarlega um jákvæða mismunun og nauðsyn þess að beita því ákvæði jafnréttislaganna sem hefur verið í gildi mjög lengi, sennilega 10--12 ár, eins og ég nefndi áðan. Það má nefna í því sambandi að Reykjavíkurborg hefur raunverulega farið þá leið með ákveðnum hætti að beita þessari jákvæðu mismunun. Það hefur orðið til þess að launamunurinn hjá Reykjavíkurborg hefur minnkað verulega. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar hefur óútskýrður kynbundinn launamunur minnkað hjá Reykjavíkurborg úr 15,5% niður í 7% árið 2001. Þennan árangur má rekja til víðtækra aðgerða á mörgum sviðum, bæði að því er varðar kjarasamningagerð, hækkun launa í hefðbundnum kvennastéttum og margháttaðar samræmingaraðgerðir í kjarasamningum o.s.frv. Þannig að ég tel að sá árangur sem þar hefur náðst ætti að vera gott fordæmi og leiðarvísir í þeirri vinnu sem fram undan er, verði þessi tillaga samþykkt.

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að kannanir og úttektir sem gerðar hafa verið staðfesta að yfirborganir, duldar greiðslur og fríðindi renna í miklu meira mæli til karla en kvenna. Mér er ávallt í fersku minni þegar ég beindi fsp. til viðskrh. á Alþingi fyrir þremur árum, um að kerfi fastra bifreiðastyrkja í bankakerfinu væri notað til að hygla körlum á kostnað kvenna í sambærilegum stöðum. Þegar þetta kom fram, sem var mjög skýrt í svari viðskrh., var málið kært til kærunefndar jafnréttismála og niðurstaða hennar var sú að afgerandi munur væri á bifreiðastyrkjum eftir kyni sem bryti í bága við jafnréttislög. Yfirmenn banka töldu engu að síður að engin lög væru brotin. Hæstv. viðskrh. taldi sig ekki geta fylgt málinu eftir, jafnvel þó að bankarnir væru þá í meirihlutaeign ríkisins. Sennilega hefur lítið gerst í því máli varðandi mismun á bifreiðastyrkjum til karla og kvenna í bankakerfinu þrátt fyrir úrskurð kærunefndar þar um. Þess vegna er, herra forseti, nauðsynlegt að leita nýrra leiða til þess að ná utan um þetta mál og ná því fram að jafnrétti ríki í launamálum kynjanna, vegna þess, herra forseti, að það er ekki síður hagur karlanna að það ríki launajafnrétti, að konur geti fært til framfærslu heimilanna það sem þeim ber fyrir sambærileg störf og karlar. Þess vegna er það hagur bæði karla og kvenna og allrar fjölskyldunnar að það verði gripið til samstilltra aðgerða á öllum sviðum og af öllum aðilum sem að því máli koma til að ná meiri árangri en náðst hefur hingað til.

Það hafa verið gerðar, eins og ég nefndi, kannanir og í grg. með þessari tillögu eru tveimur könnunum sem gerðar voru af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerð ítarleg skil. Önnur var gerð 1995 samkvæmt beiðni Jafnréttisráðs og hin að tilhlutan tölfræðihóps norræna jafnlaunaverkefnisins, sem ég hef ekki tíma, herra forseti, til þess að rekja nánar, en vísa í þessar kannanir sem gefa góða vísbendingu um að allt of lítið hafi gengið að jafna launakjör kynjanna fyrir sambærileg störf.

Herra forseti. Í þessari tillögu er sérstaklega vísað til atvinnurekendaábyrgðar fjmrn. og lýst eftir sýn þess á með hvaða aðferðum eyða megi kynbundnum launamun og hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar til að árangur náist. Það er kallað eftir forustu fjmrn. í tillögunni hvað varðar kjarasamningagerð, sem er í höndum hæstv. fjmrh., og eftirlit með launagreiðslum ríkisstofnana. Einnig er vísað til þess að stofnanir ríkisins nýti lögbundnar jafnréttisáætlanir til að greina vandann innan hverrar stofnunar og setji fram markmið og tímasetji aðgerðir til að jafna launamun kynjanna. Þá er brýnt að aðilar vinnumarkaðarins geri raunhæfar framkvæmdaáætlanir um að eyða kynbundnum launamun.

Með þeirri tillögu sem hér er flutt er leitað markvissra leiða til að vinna gegn launamisrétti og ná árangri með sex ára aðgerðaráætlun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. félmn.