Framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:08:06 (664)

2003-10-16 12:08:06# 130. lþ. 12.13 fundur 15. mál: #A framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. flm. þessarar tillögu fyrir framlagningu hennar því að hér er um þarft umfjöllunarefni að ræða og það er augljóst að við sættum okkur ekki við og eigum ekki að sætta okkur við kynbundinn launamun. Á þetta hefur sá er hér stendur lagt áherslu og hefur í hyggju að vinna markvisst gegn hvers konar kerfisbundnum mismun á launum kynjanna.

Herra forseti. Ég vil enn fremur nota þetta tækifæri til þess að upplýsa Alþingi um að nú er unnið að viðamikilli könnun á sviði jafnréttismála þar sem launamunur kynjanna er m.a. sérstakt viðfangsefni. Að henni standa auk félmrn., forsrn., Jafnréttisstofa og Háskóli Íslands.

Herra forseti. Í þáltill. sem hér er til umræðu felast mikilvægar ábendingar og þetta eru að mörgu leyti góðar tillögur. Rétt er þó að skoða um leið hvað verið er að gera nú þegar á þessu sviði. Eins og mönnum er kunnugt skal félmrh. leggja fyrir Alþingi eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn, að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisstofu. Þessi áætlun skal endurskoðuð tveimur árum síðar og liggur fyrir að tillaga um ályktun verður lögð fyrir Alþingi næsta vor.

Herra forseti. Ég vil einnig í stuttu máli víkja að öðrum verkefnum sem líkleg eru til að draga úr launamun kynjanna. Foreldra- og fæðingarorlofið, sem nú er að fullu komið til framkvæmda og gerir ef svo má að orði komast kynin jafneftirsóknarverð á vinnumarkaði, er eitt dæmi um þetta. Annað sem ég vildi nefna, herra forseti, er að Samband íslenskra sveitarfélaga er langt komið með að aðlaga breskt starfsmat að íslenskum aðstæðum og verður þetta kerfi innleitt hjá Reykjavíkurborg innan skamms og eru bundnar talsverðar vonir við árangur af því á því sviði.

Enn vildi ég nefna aðgerðir Íslands í tilefni af formennsku okkar í norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Fyrirhuguð er samanburðarrannsókn á þátttöku og viðhorfi til fæðingarorlofs á öllum Norðurlöndunum sem og á þeim hindrunum sem kunna að vera fyrir því að fólk nýti sér þennan rétt. Þar leggjum við einnig áherslu á að sjónum verði beint að hefðbundnum kvennastörfum með þeim hætti að tryggja að karlar fái tækifæri til að gegna t.d. umönnunar- og uppeldisstörfum. Í formennskuáætlun Íslands er þó fyrst og fremst lögð áhersla á að finna leiðir til að draga úr kynbundnum launamun og verður í því sambandi lögð sérstök áhersla á samstarf milli jafnréttissviðs og vinnumálasviðs.

Herra forseti. Í ljósi þess sem fyrr er rakið þætti mér ekki úr vegi að félmrn. og Jafnréttisstofa í samvinnu við fjmrn. útfærðu umrædda till. til þál. nánar með þeim hætti að hún falli inn í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Það liggur beint við að fara þá leið frekar en vera með margar áætlanir uppi í einu. Fyrsta skrefið yrði að beina sjónum að starfsmönnum ríkisins. Síðan mætti skoða samráð við sveitarfélögin en jafnréttisfulltrúar þeirra eiga einmitt gott samráð við Jafnréttisstofu. Samband íslenskra sveitarfélaga er þegar að vinna að jafnlaunaverkefnum sem nýst gætu á sviði ríkisins. Samráð milli ríkis og sveitarfélaga á þessum vettvangi tel ég raunar mjög raunhæft. Aðgerðir sem beint yrði að hinum almenna vinnumarkaði gætu fylgt í kjölfarið þegar reynsla yrði komin á það hvernig ríkinu gengi að ná fram markmiðum sínum, enda tel ég að ríkisvaldið eigi að ganga fram með góðu fordæmi í þessum efnum.