Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:35:30 (672)

2003-10-16 12:35:30# 130. lþ. 12.14 fundur 17. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:35]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að gera nokkrar athugasemdir við það sem kemur fram í þessari till. til þál. um rekstur Ríkisútvarpsins. Fyrir það fyrsta vil ég segja að það er margt gott í henni sem sá sem hér stendur gæti heils hugar tekið undir en í greinargerðinni segir m.a. að Ríkisútvarpið sé ,,viðurkennd stoð íslenskrar tungu og menningar. Rekstur þess er ómissandi til að gefa almenningi kost á hvers konar fræðslu- og menningarefni sem aðrir ljósvakamiðlar vanrækja. Slíkur miðill getur ekki verið til öðruvísi en að vera í þjóðareign og fjármagnaður af almenningi úr ríkissjóði. Markaðslausnir geta ekki átt við starfsemi af þessu tagi``.

Ég verð að segja fyrir mína parta að ég get ekki séð að nein önnur lögmál gildi um rekstur fjölmiðla en annarra fyrirtækja. Ég get ekki betur séð en að útvarps- eða sjónvarpsrekstur geti allt eins verið á hendi einkaaðila eins og hins opinbera og eigi reyndar að vera þar í öllum grundvallaratriðum. Ég mundi segja að forsendurnar að baki þessarar þáltill. séu í það minnsta hæpnar hvað þetta varðar. En svo verð ég að leyfa mér að efast um að rekstur Ríkisútvarpsins sé nákvæmlega sá sem hér er lýst. Ég veit ekki betur en að Ríkisútvarpið leggi sig mjög fram við að bjóða upp á ýmsa afþreyingu sem ætti frekar heima á einkastöðvunum og leggi sig mjög hart fram í samkeppni einmitt á þeim vettvangi í þessum rekstri.