Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 12:37:46 (673)

2003-10-16 12:37:46# 130. lþ. 12.14 fundur 17. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[12:37]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum alls ekki haldið því fram að aðrir geti ekki rekið hljóðvarp og sjónvarp, enda er ekki verið að leggja til að einkaframtak í þá veru verði lagt af. Við erum eingöngu að draga það fram með þessari tillögu að Ríkisútvarpið sé allra landsmanna, ekki bara fólks sem býr á suðvesturhorninu og nær að heyra allan þann fjölda stöðva sem boðið er upp á, heldur einnig landsmanna vítt og breitt, upp til sveita og út til stranda þar sem á mörgum stöðum nást illa aðrar stöðvar en Ríkisútvarpið og sums staðar jafnvel bara langbylgjan. Þar að auki eru aðrir miðlar sem vonandi komast nú til allra landsmanna með nútímatækni og dreifingu upplýsinga og aðgangi manna að fjarnámi og símenntun. Þar sitja ekki allir við sama borð. Við teljum að Ríkisútvarpið sé að stórum hluta líka öryggistæki fyrir landsmenn og það verði að vera hægt að treysta á að dreifikerfi útvarpsins nái til allra Íslendinga og að allir sitji þar við sama borð. Við teljum að það verði ekki gert öðruvísi en að ríkið sjái um þann þáttinn. M.a. þess vegna er tillagan flutt og einnig til þess að breyta fyrirkomulagi og þeim rekstrarlegu áherslum sem Ríkisútvarpið hefur búið við á undanförnum árum.