Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:10:47 (685)

2003-10-16 14:10:47# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um sérstakan skattafslátt vegna barna. Þegar tillaga þessi er lesin í hörgul sést fljótt að þetta eru í rauninni barnabætur, ótekjutengdar barnabætur, og það er meira að segja gert ráð fyrir að þær verði háðar fjölda barna í fjölskyldu en verði algjörlega ótekjutengdar. Það eru rök fyrir því, herra forseti. Í fyrsta lagi þau rök að jafna aðstöðu foreldra sem eru með sambærilegar tekjur og önnur hjón sem eiga engin börn. Það er verið að jafna aðstöðu þeirra, bæði með svipaðar tekjur. Það sem mælir á móti því er að þessi tillaga gerir ráð fyrir því að fólk með mjög háar tekjur, jafnvel með milljón á mánuði, fái barnabætur óskertar. Og þær eru að sjálfsögðu greiddar með sköttum allra, líka þeirra sem eru með lágar tekjur. Það kemur þannig út að það er þá verið að skattleggja foreldra með lágar tekjur í gegnum virðisaukaskatt, í gegnum skatta almennt til þess að greiða barnabætur til foreldra með mjög háar tekjur.

Á sínum tíma þegar barnabætur voru hækkaðar mikið í vandræðunum miklu 1993, 1994 og 1995, þá var að tillögu Alþýðuflokksins sáluga tekin upp mikil tekjutenging þessara stórhækkuðu barnabóta. Þannig að það var litið til félagslegrar stöðu fjölskyldunnar. Síðan þá hafa menn verið að vinna í því að afnema þessar tekjutengingar, milda þær og minnka og það er markmið núverandi ríkisstjórnar að vinna áfram í því að minnka tekjutenginguna. Þannig að við erum að stefna á það sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

En þá kemur spurningin hvort það sé eðlilegt að vera að borga fólki með mjög háar tekjur bætur sem eru greiddar með sköttum allra, líka þeirra sem eru með lágar tekjur. Og frv. tekur meira að segja að vissu leyti tillit til félagslegrar stöðu, vegna þess að það stendur í tillögunni að barnabætur fari stighækkandi eftir fjölda barna, þ.e. það er ekki sagt að hvert barn fái sínar barnabætur, heldur að það fari stighækkandi, og ég reikna náttúrlega með því að t.d. þrjú börn fái eitthvað hærri bætur eða skattafslátt en eitt barn, en ekki endilega þrefalt. Þannig að tekið sé tillit til þess að það er ódýrara að ala upp þrjú börn í einu heldur en þrisvar sinnum eitt barn.

Í Evrópu hefur orðið mikil umræða um aðstoð við barnafólk vegna þess að fæðingum hefur fækkað mjög mikið og það horfir til vandræða vegna þess að börn nútímans standa undir velferðarkerfi framtíðarinnar á grundvelli kynslóðasamningsins. Þess vegna er mjög mikilvægt að það fæðist börn og það þarf að stuðla að því með öllum ráðum að það gerist. Hér á landi er þessi vandi ekki til staðar í sama mæli. Íslendingar hafa verið mjög duglegir að eiga börn og íslenskt þjóðfélag er mjög barnvænt, afstaða fólks til barna er mjög jákvæð, andstætt því sem víða er í Evrópu. Og þess vegna er ekki eins mikil þörf á því að styðja börn sérstaklega og alveg sérstaklega er ekki þörf á því að styðja barneignir tekjuhás fólks, fólks sem er kannski með milljón á mánuði. Þannig að ég hef dálitlar efasemdir um þetta frv. vegna þess arna, að það eigi að vera algerlega óháð tekjum. Og það er bara af félagslegri ástæðu að mér finnst óeðlilegt að skattleggja fólk með lágar tekjur og sem á börn og hefur kannski erfiða framfærslu, mikla ómegð, skattleggja það til þess að borga óskertar barnabætur í sama mæli til fólks með háar tekjur.