Skattafsláttur vegna barna

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 14:55:15 (697)

2003-10-16 14:55:15# 130. lþ. 13.3 fundur 23. mál: #A skattafsláttur vegna barna# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef fortíðin er gerð upp í þessum efnum, og við skulum miða þá við síðustu átta ár, þá sé hún nú býsna góð þannig að segja má að efndir á fyrirheitum af hálfu Framsfl. hafi nú verið nokkuð miklar. Við verðum auðvitað að hafa það í huga að þegar stjórnmálaflokkur ályktar á flokksþingi sínu og mótar sér stefnu þá getur hann ekki bundið aðra en sjálfan sig í þeim efnum. Stjórnmál á Íslandi eru samsteypustjórnarstjórnmál eins og hv. þm. kannast við frá fyrri tíð sinni á Alþingi. Menn koma því ekki alltaf öllu fram sem þeir ætla sér og kannski ekki öllu jafnhratt og menn vilja. Ég held að engin ástæða sé til að gera hlut okkar framsóknarmanna slæman í þessum efnum. Mér fannst hv. þm. tala eins og hann væri að því. Ég er algjörlega ósammála því. Ég tel að það hafi náðst fram sem menn stefndu að með barnakortin. Þau fengu að vísu ekki að heita barnakort. Um það náðist ekki samkomulag. En það er alveg ljóst að við lögðum það til. Það sem skiptir aðalmáli er auðvitað innihaldið en ekki nafnið eins og hv. þm. veit mætavel. Við höldum ótrauðir áfram að ná fram til fulls því markmiði sem við settum okkur með barnakortin. Ég get ekki annað séð en að málið sé á býsna góðum rekspöl.