Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 15:17:45 (703)

2003-10-16 15:17:45# 130. lþ. 13.2 fundur 20. mál: #A kosningar til Alþingis# þál., ISG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Hér er áhugavert mál á ferðinni þó það láti kannski ekki mikið yfir sér, er aðeins þrjár línur. En það felur í sér, ef þessi ályktun næði fram að ganga, að ákveðið yrði að Alþingi skipaði eða fæli forsrh. að skipa fulltrúa allra þingflokka í nefnd til að endurskoða kjördæmaskipan og tilhugan kosninga til Alþingis. Nefndin á að hafa það markmið að jafna atkvæðisrétt landsmanna þar sem landið verði allt eitt kjördæmi.

Undir þetta geta þingmenn Samf. tekið, enda hefur Samf. haft það á stefnuskrá sinni líklega allt frá stofnun, og ég held ég fari með rétt mál, virðulegur forseti, þegar ég held því fram að gerð hafi verið um þetta sérstök samþykkt á stofnfundi Samf. árið 2000, að gera ætti breytingar á kjördæmaskipaninni í þá átt að gera landið allt að einu kjördæmi. Það var raunar lengi stefna a.m.k. Alþýðuflokksins á sínum tíma og þótti nú ýmsum að þar væri á ferðinni allt að því landráðastefna við landsbyggðina eins og margir litu á þegar talað var fyrir því á sínum tíma.

Að baki kjördæmaskipan, því að skipta landinu í kjördæmi, liggur sú hugsun að kjördæmin séu landfræðileg heild, að þau geti verið eðlileg landfræðileg heild og í því felst líka að kjördæmin eru þá mörg. Það eru engin rök á bak við þá kjördæmaskipan sem núna er, engin eðlileg rök, engin málefnaleg rök á bak við hana. Kjördæmin eru þannig að þeir sem kjörnir eru, sérstaklega úr Norðaustur- og Norðvesturkjördæminu, eiga fullt í fangi með að sinna þeim kjördæmum svo vel sé, þannig að hugsunin sem upphaflega er á bak við það að skipta landinu í mörg kjördæmi er löngu farin miðað við þá skipan sem núna er.

Fullyrða má að ekkert kjördæmi sé lengur eðlileg landfræðileg heild. Ekkert landsbyggðarkjördæmi, ekki Reykjavíkurkjördæmin og ekki kraginn svokallaði heldur. Auðvitað eru engin rök bak við það að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi eftir Miklubraut og Vesturlandsvegi. Það er bara talnaleikur sem býr þar að baki en engin efnisleg eða málefnaleg rök. Og auðvitað eru engin rök fyrir því að Seltjarnarnes sem tengist beint Reykjavík skuli tilheyra Suðvesturkjördæminu. Ef við erum yfirleitt með kjördæmaskipan ætti það að fylgja Reykjavík en ekki kraganum svokallaða.

Ég hélt lengi vel að andstaðan við að gera landið að einu kjördæmi væri fyrst og fremst á landsbyggðinni. En ég komst að því í vor að svo er alls ekki. Ég komst t.d. að því að á Vestfjörðum er mikið fylgi við þá hugmynd að gera landið allt að einu kjördæmi, einmitt með þeim rökum sem sett eru fram í grg. með þessari þáltill. að þar með bæru allir þingmenn jafna ábyrgð gagnvart kjósendum sínum hvar sem búseta þeirra væri. Ég held að mikilvægt sé að við lítum svo á að allir þingmenn hafi jafnar skyldur og jafna ábyrgð gagnvart landsmönnum öllum hvar sem þeir eru búsettir.

Það búa ekki nema 280.000 manns í landinu og óþarfi að skipta þeim upp í einhver hólf og velja þingmenn með tilliti til þess hvar þeir hafa búsetu eða hafa haft á landinu.

Ég held líka að ef þetta næði fram að ganga væri það hagstæðara fyrir konur en sú kjördæmaskipan sem núna er, því við vitum að því færri sem kjörnir eru á þing úr tilteknum kjördæmum, þeim mun erfiðara er fyrir konur að komast inn. Ef þingmenn eru kjörnir úr einu kjördæmi þá held ég að möguleikar kvenna til þess að ná kjöri verði meiri en þeir eru núna og ég tala nú ekki um eins og áður þegar kjördæmi voru kannski með örfáa þingmenn.

Ég held að þetta væri til bóta og vil lýsa því yfir að ég er efnislega sammála því að sú nefnd hafi þetta að markmiði, að jafna atkvæðisréttinn og gera landið allt að einu kjördæmi.