Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 15:30:02 (705)

2003-10-16 15:30:02# 130. lþ. 13.2 fundur 20. mál: #A kosningar til Alþingis# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við ræðum till. til þál. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis með það að markmiði að landið verði allt eitt kjördæmi.

Þegar núverandi kjördæmaskipan var tekin upp stóðu menn frammi fyrir tveim ,,extrem`` valkostum, annars vegar einmenningskjördæmum og hins vegar að landið allt yrði eitt kjördæmi. Ef við erum með einmenningskjördæmi getur komið upp sú staða að einn flokkur sem fær 51% í öllum kjördæmum fær alla þingmenn og annar flokkur sem er með 49% fær engan. Það er mjög ólýðræðislegt.

Þá gerist það líka að einstaklingarnir sem eru í kjöri skipta meginmáli, stefnurnar eða flokkarnir skipta minna máli. Þetta er ókostur við það kerfi. Ef við erum með landið allt sem eitt kjördæmi skipta einstaklingarnir mjög litlu máli en flokkarnir, þ.e. stefnurnar, skipta öllu máli. Og þyki mönnum mikið til um flokksræðið í dag geta menn ímyndað sér hvað gerist þegar flokkurinn ákveður lista fyrir allt landið. Þá er það flokkurinn sem ræður alls staðar.

Sem milliveg á milli þessara tveggja öfga völdu menn að hafa sex nokkurn veginn jafnstór kjördæmi til þess að hafa kosti einstaklingsins, þ.e. 10--11 þingmenn í hverju kjördæmi, og kosti stefnunnar, þ.e. að hafa marga flokka í hverju kjördæmi. Þetta var sem sagt mjög meðvituð stefna og þess vegna klufu menn Reykjavík, sem er náttúrlega eðli sínu samkvæmt eitt kjördæmi, í tvennt. Af þessari ástæðu. Þetta var ekki alveg óhugsað.

Svo var það málamiðlun að misvægi atkvæða skyldi verða tvöfalt. Það var miklu meira áður. Auðvitað er maður ekki sáttur við það. Auðvitað er maður ekki sáttur við að sumir þingmenn hafi tvöfalt fleiri kjósendur á bak við sig en aðrir. En þetta var málamiðlun til breytingar í þá átt að minnka þetta misvægi.

Það er alltaf misvægi jafnvel þó að landið yrði allt eitt kjördæmi. Næsti maður á eftir síðasta þingmanni sem kemst inn er með 1 á móti 64 í atkvæðavægi eða eitthvað þar um bil sem er 1,6% og þau hafa engin áhrif. Þau vantar alveg. Það er alltaf mismunun. En hún er náttúrlega miklu minni heldur en þegar það er tvöfalt.

Það sem mér finnst að menn ættu að skoða ef þeir vilja endilega breyta þessu, og það er sjálfsagt að hafa umræðuna stöðugt í gangi, væri að taka upp kerfi sem er notað í Þýskalandi. Þar kjósa menn annars vegar flokk og hins vegar einstakling, óháð hvort öðru. Það væri t.d. hægt að kjósa Samf. sem flokk og síðan einhvern þingmann af lista Sjálfstfl. (Gripið fram í: Pétur Blöndal?) Það sagði ég ekki. Þannig næst bæði fram stefnan, þ.e. flokkurinn, og einstaklingurinn. Flokksræðið minnkar mikið við það.

En þá er líka fjöldi þingmanna breytilegur. Fjöldi þingmanna á þýska þinginu getur verið breytilegur að mér skilst um hartnær 100 þingmenn. Það eru eitthvað um 600 þingmenn að meðaltali og fjöldinn er breytilegur sem gæti skapað ákveðið vandamál varðandi stólafjölda í þingsal.