Stofnun stjórnsýsluskóla

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 15:55:53 (708)

2003-10-16 15:55:53# 130. lþ. 13.4 fundur 24. mál: #A stofnun stjórnsýsluskóla# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fáein orð um þessa tillögu. Ég er einn af flutningsmönnum og tel að það sé full ástæða til þess að gefa gaum að þessu máli og koma í framkvæmd sem fyrst. Ég held að við þurfum ekki annað en að renna huganum fáein ár aftur í tímann og velta fyrir okkur hlutum sem hafa gerst sem sýna okkur að það er langt frá því að við höfum komið upp stjórnsýslu í þessu landi sem stenst þær kröfur sem við eigum að gera til hennar. Borgararnir hafa þurft að sækja rétt sinn jafnvel til útlanda vegna þess að það hefur verið brotið á þeim hér, um það eru fleiri dæmi. Við höfum doðranta frá umboðsmanni Alþingis um hluti sem hafa gerst þar sem embættismenn ríkisins, bæjarfélaganna, stjórnsýslunnar allrar í raun og veru, hafa ekki sýnt borgurunum þá virðingu sem eðlilegt er. Ég held að skóli af þessu tagi sé mjög nauðsynlegur. Í honum færi fram menntun á þessu sviði og umræða um þróun siðareglna í stjórnsýslu sem ég held að sé á allan hátt ákaflega nauðsynlegt.

Fyrsta veturinn sem slíkur skóli yrði starfræktur þyrfti helst að hafa í einum bekk alla þá sem ráða í þessu þjóðfélagi núna, ríkisstjórnina og ráðherrana alla, vegna þess að það hefur verið hlutskipti umboðsmanns Alþingis og borgaranna á undanförnum árum að horfa upp á það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin í heilu lagi virðast alls ekki bera virðingu fyrir eðlilegum siðareglum í stjórnsýslu. Fjölmargar og ítrekaðar ábendingar umboðsmanns Alþingis t.d. til sjútvrh. eru gott dæmi um þetta og lagasetningar ríkisstjórnarinnar, sumar hverjar, sem hún hefur gengist fyrir og Alþingi hefur samþykkt, hafa verið síðan framkvæmdar. Sum þessara laga hefur kannski alls ekki verið mögulegt að framkvæma með eðlilegri stjórnsýslu vegna þess að það hefur verið ætlast til þess að hlutir gerðust sem eru í raun og veru óréttlátir, mismuna borgurunum.

Ég held að umræðan um stjórnsýsluskóla og það námsefni sem yrði þar til staðar gæti hjálpað okkur dálítið áfram í þessum hlutum. Vegna þess að umboðsmaður Alþingis, sem er ekki vafamál að var stórt framfaraskref að það embætti skyldi vera stofnað, er til umræðu þá er ljóst að verkefni hans yrðu ákaflega mikið til umfjöllunar þegar menn velta fyrir sér siðareglum í stjórnsýslunni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri en ég hvet til þess að sú nefnd sem fær þetta mál að lokum til umfjöllunar í þinginu taki á því af fullri alvöru og sýni vilja til þess að koma því til framkvæmda. Í framhaldi af því að mikilvæg embætti, eins og t.d. umboðsmaður Alþingis, eru komin á laggirnar þurfum við á þessu að halda. Við þurfum held ég ekki fleiri ábendingar eða meiri rökstuðning fyrir því að hrinda þessu í framkvæmd en liggur fyrir.

Eitt af því sem stjórnvöld, sem hafa farið með völdin a.m.k. síðustu árin, hefur skort átakanlega er að hlusta á rök, taka mark á góðum rökstuðningi fyrir því að einhverjir hlutir séu gerðir og taka mark á andrökum, t.d. fyrir því að eitthvað af því sem stjórnvöld hafa hugsað sér að gera sé kannski ekki alveg nákvæmlega það rétta. Menn hefur skort þann pólitíska styrk og þá pólitísku stærð sem þarf til þess að standa uppréttir gagnvart lýðræðinu, sem er auðvitað líka fólgið í því að fallast á rök andstæðinganna þegar þau eru góð og sterk. Hér eru færð fram góð rök fyrir því að það væri hægt með stofnun þessa stjórnsýsluskóla að þroska betur stjórnsýsluna og þjóna borgurunum með meiri virðingu en hefur verið gert fram að þessu.

Ég vona sannarlega að það verði tekið á þessu máli.