Tannvernd barna og unglinga

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 16:22:20 (712)

2003-10-16 16:22:20# 130. lþ. 13.5 fundur 25. mál: #A tannvernd barna og unglinga# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. nefndi að fyrir 20 árum hafi verið full endurgreiðsla vegna tannheilsu barna. Það er alveg rétt. Þetta er auðvitað í samræmi við aðra þróun. Það er verið að auka kostnaðarþátttöku sjúklinga og þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Það er auðvitað mjög slæmt, sérstaklega í þessu tilviki sem hv. þm. er að tala um, varðandi tannheilsu barna.

Ef ríkið stuðlar að forvörnum og eftirliti með því að greiða það að fullu þá verður það auðvitað til þess að foreldrar sæki sér þá þjónustu og komi þar með í veg fyrir að allt fari í óefni og tannlækningar vegna barna þeirra verði dýrari.

Ég styð því heils hugar að menn skoði málið af fullri alvöru, sérstaklega að því er varðar forvarnir og eftirlit, að ríkið greiði það að fullu vegna barna. Ég vil árétta að með spurningu minni til hv. þm. var ég ekki að draga úr þessu. Ég hvet aðeins til að fundið verði út hvað þetta mundi kosta.

Ég minnist þess að ég flutti fyrir nokkrum árum tillögu um að heimila skattafslátt vegna tannviðgerða. Ég held að það hefði skilað sér margfalt, bæði í að bæta tannheilsu þjóðarinnar og eins kæmu full skil af slíkri greiðslu inn í ríkissjóð af því sem tannlæknar hafa í tekjur.

Eins flutti ég tillögu um 25% endurgreiðslu í öllum almennum tannlækningum. Það átti sér stuðning hér á þinginu. En þær hugmyndir hafa ávallt strandað á kostnaði fyrir ríkissjóð og þess vegna bar ég fram þessa spurningu til hv. þm.