Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 16:27:17 (714)

2003-10-16 16:27:17# 130. lþ. 13.6 fundur 153. mál: #A Seðlabanki Íslands# (bankastjórar) frv., Flm. ISG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands.

Áður en ég kem að efnisinntaki frv. langar mig að nota hluta af ræðutíma mínum til að fjalla örlítið um reynslu mína af því að sitja í þingsölum nú í fjóra daga. Ég kvaddi Alþingi fyrir níu árum og fannst þá, það var reynsla mín þá, að þingmenn sætu almennt ekki mjög vel þingfundi, ég tala ekki um þingmenn ríkisstjórnarinnar. Ástandið var vont þá en það er snöggtum verra núna.

Mér finnst raunar með ólíkindum að sitja dag eftir dag í hálftómum þingsal. Hér sjást varla þingmenn úr stjórnarliðinu. Ég hygg að í dag væri hægt að telja á fingum annarrar handar þá sem hafa heiðrað þetta háa Alþingi með nærveru sinni. Ráðherrar eru sjaldséðir hvítir hrafnar á þessari samkundu. Það er kannski ekkert við því að segja. Ég veit að þeir mæðast í mörgu og hafa kannski ekki alltaf tíma til að vera viðstaddir þegar þingmenn mæla fyrir málum sínum. Kannski er ekki hægt að gera kröfu til þess. Það eru þó tveir ráðherrar sem kannski hafa skorið sig úr í þessari viku hvað það varðar að koma þó og hlusta á þingmenn flytja mál sín. Það eru hæstv. viðskrh. og hæstv. félmrh. Aðrir hafa komið hér rétt til þess að flytja mál sín og eru síðan roknir á dyr.

En látum það vera. Alþingi hlýtur sjálft að þurfa að gæta að virðingu sinni. Þegar stjórnarþingmenn, sem sitja í nefndum Alþingis, formenn nefnda Alþingis, bera varla við að mæta í þingsal til að hlusta á þingmenn mæla fyrir málum sem eiga eftir að koma til kasta þessara nefnda þá finnst mér fokið í flest skjól.

Mér finnst það áleitin spurning, sem ég varpa hér í hálftóman þingsalinn að vanda, hvort forsn. þingsins ætti ekki að velta fyrir sér að gera það að skyldu nefndarformanna að hlýða á þegar mælt er fyrir málum sem eiga eftir að koma til kasta viðkomandi nefnda. Hér kemur oft ýmislegt fram í umræðunni sem ágætt væri fyrir þá að vita þegar þeir fjalla um málið í nefndinni.

[16:30]

Menn eru hér að tala til Alþingis. Menn eru að mæla fyrir málum hér á Alþingi og sannfæra aðra þingmenn um ágæti þess sem þeir hafa fram að færa. Þá og því aðeins er hægt að sannfæra einhvern að einhver hlusti. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst Alþingi hafa sett ofan og mér finnst mjög miður að sjá það, nú þegar Alþingi hefur aðeins starfað í þrjár vikur, að þetta yfirbragð er orðið á þinginu. Það væri hugsanlega hægt að skilja það ef komið væri fram að þinglokum en aðeins þrjár vikur eru liðnar af þingtímanum og þingmenn er strax þrotið örendið. Ég veit ekki hvernig það verður þegar líða tekur á þetta fyrsta þing eftir kosningar. Þetta er fyrsta þingið eftir kosningar, þrjár vikur liðnar af því og þetta er það sem við okkur blasir. Það er engum um að kenna nema þingmönnum sjálfum. Ég veit að þetta hefur eitthvað komið til umræðu í þinginu, í síðustu viku líklega, og einhver þingmaður hafði á orði að það væri bara popúlismi af versta tagi að tala um þetta. Það er það ekki. Það er enginn popúlismi að tala um þetta. Þetta er mál sem þingmenn verða að gaumgæfa og huga að. Ef nýir þingmenn mæta til þings og venjast því og læra það að hér þurfi enginn að vera, hér þurfi menn ekki að hlusta hver á annan, mun þessari stofnun bara hnigna, virðulegur forseti. Þetta ætla ég að segja áður en ég mæli fyrir þessu máli mínu. Ég er búin að vera hér meira og minna frá kl. 10.30 í morgun og, eins og ég segi, það er hægt að telja á fingrum annarrar handar stjórnarþingmennina sem hér hafa mætt til leiks.

Virðulegur forseti. Málið sem ég tala hér fyrir er um breytingu á lögum um Seðlabanka og það er í rauninni sáraeinfalt. Þetta frv. felur það í sér að gerð verði breyting á 23. gr. laga um Seðlabankann, eiginlega tvíþætt breyting. Annars vegar lýtur hún að því að auglýsa skuli opinberlega eftir umsóknum um stöðu bankastjóra og hins vegar að bankastjórar skuli hafa reynslu og víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum efnahagsmálum. Sem sagt, þetta embætti skuli vera opið til umsóknar eins og önnur og að það verði gerðar ákveðnar hæfniskröfur til þeirra sem ráðnir eru til þessa embættis en svo er ekki í núgildandi lögum.

Forsaga þessa máls er sú að árið 2001 voru sett ný lög um Seðlabanka Íslands en meginmarkmið þeirra var að auka sjálfstæði Seðlabankans og gera honum kleift að vinna markvisst og faglega að stjórnun peningamála. Þegar frv. var til umfjöllunar á Alþingi lögðu þingmenn Samf. fram tillögu um að bankastjóri yrði einn en ekki þrír og að ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum yrðu teknar af peningastefnunefnd eins og víða tíðkast, t.d. í Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum. Þetta náði ekki fram að ganga á því þingi og þó að hér sé ekki gerð tillaga um að bankastjórum verði fækkað úr þremur í einn er það eftir sem áður stefna Samf. Það sem mér gengur til með þessu frv. er hins vegar að gera umbætur á núgildandi lögum eins og þau eru, umbætur sem ég tel mjög brýnar og þess vegna er þetta ekki nein endurskoðun á lögunum í heild sinni, heldur einungis á einu ákvæði þessara laga.

Þrátt fyrir að þingmenn Samf. hafi flutt frv. sem hafði í för með sér ákveðnar breytignar hvað varðar bankastjóra og ákvarðanir í peningamálum studdu þeir frv. og þeir studdu hin nýju lög um Seðlabankann, enda var stuðningurinn við þau hér á Alþingi víðtækur. Hér var ekkert mótatkvæði greitt þegar lögin voru samþykkt, enda var það talið þeim helst til tekna að nú væru gerðar hliðstæðar kröfur til Seðlabanka Íslands og annarra seðlabanka um gagnsæi, fagleg vinnubrögð og sjálfstæði. Bankinn stefnir nú að ákveðnu verðbólgumarkmiði og gengi krónunnar ákvarðast á markaði. Ákvarðanir í peningamálum eru því að verulegu leyti orðnar faglegt viðfangsefni sem krefst sérfræðiþekkingar í þjóðhags- og peningahagfræði. Þetta sjónarmið er viðurkennt af seðlabönkum um allan heim og kemur gleggst fram í því að af 35 seðlabankastjórum víðs vegar um heiminn eru 33 menntaðir hagfræðingar. Það er auðvitað engin tilviljun vegna þess að í þeirri menntun --- margir þeirra eru með doktorsmenntun og að lágmarki mastersmenntun í hagfræði --- felst að þeir hafa tileinkað sér ákveðna faglega nálgun í þessum málum. Auðvitað geta ýmsir kynnt sér hagfræði og kunna sitthvað fyrir sér í henni en þeir hafa samt ekki þann faglega grunn að standa á sem fylgir óneitanlega slíkri menntun. Við getum líka mörg hver tileinkað okkur ýmislegt í lögum og getum bara orðið býsna góð í því að lesa og skilja og túlka lög en við erum samt ekki talin til þess hæf að fara með þau tæki sem dómstólum eru falin að lögum.

Ákvörðunarvaldið í peningamálum er í höndum stjórnar Seðlabankans en þar sitja þrír bankastjórar, skipaðir samkvæmt ákvörðun forsrh. Ábyrgð og völd bankastjórnarinnar eru mikil og því nauðsynlegt að hún hafi tiltrú og njóti trausts sem fagleg og sjálfstæð stofnun. Það er ljóst að talsvert skortir þar á.

BS-ritgerð var skrifuð við Háskólann í Reykjavík nýverið þar sem inntakið var viðtalskönnun meðal 22 innlendra sérfræðinga sem starfa á vegum fjármálastofnana og hagsmunasamtaka sem eru auðvitað þeir sem þurfa að hafa tiltrú á Seðlabankanum og ákvörðunum hans. Þar kemur fram að aðeins fjórir af þessum 22 töldu núverandi fyrirkomulag í peningamálum tryggja nægjanlegt sjálfstæði Seðlabankans við stjórn peningamála þó svo að 17 þeirra hafi verið sammála því að breyta um peningastefnu með nýjum lögum um Seðlabankann. Þeir voru sem sagt sammála því að gengið skyldi ráðast á markaði og vextirnir skyldu verða aðalstjórntæki Seðlabankans og hann skyldi hafa verðbólgumarkmið. Þeir töldu ekki, þrátt fyrir þetta, að bankinn hefði traust og trúverðugleika sem fagleg og sjálfstæð stofnun. Af þeim 15 sem töldu sjálfstæðið ekki nægjanlegt nefndu 14 að fagleg sjónarmið fremur en pólitísk ættu að ráða við ráðningu bankastjóra.

Þann 15. ágúst sl. skipaði forsrh. í embætti seðlabankastjóra og var það í fyrsta sinn eftir að hin nýju lög tóku gildi. Ljóst er að það skipti verulegu máli fyrir trúverðugleika og ímynd bankans hvernig að þeirri skipan væri staðið þegar fyrst reyndi á lögin. Engum blandaðist hugur um að sá sem skipaður var í embætti væri ekki aðeins hæfur til að gegna því, heldur mætti færa rök fyrir því að hann væri sá hæfasti sem völ væri á. Til að kalla eftir þeim rökum sem lágu að baki ráðningunni ákváðu fulltrúar Samf. í bankaráði Seðlabankans að senda fyrirspurn í þremur liðum til forsrh. Fyrirspurnin var:

1. Með hvaða hætti var gengið úr skugga um að sá sem skipaður var í embættið væri sá hæfasti sem völ var á?

2. Með hvaða hætti er jafnræðisreglunnar, sem er grundvallarregla í stjórnsýslu, gætt við skipan í embætti seðlabankastjóra nú þegar ekki er lengur skylt að auglýsa embættið?

3. Hvaða hæfniskröfur voru lagðar til grundvallar við nýlega ráðningu í embætti seðlabankastjóra?

Ég vil taka það fram vegna þessara spurninga og vegna frv. að þetta mál er af minni hálfu prinsippmál og hefur ekkert með þann einstakling að gera sem til starfans var ráðinn. Það skiptir máli að greina þar á milli.

Þann 22. september 2003 barst svohljóðandi bréf frá forsrh., með leyfi forseta:

,,Með vísan til erindis yðar, dags. 16. þessa mánaðar, um skipun Jóns Sigurðssonar í embætti bankastjóra í Seðlabanka Íslands, skal tekið fram, að ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 23. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands,`` --- af sjálfu leiðir að það er verið að fara að seðlabankalögunum þegar skipað er í embættið. Það þarf varla að taka það sérstaklega fram í því svari. Ég gaf mér það nú, að forsrh. færi að lögum --- ,,að aðgættum almennum starfsgengisskilyrðum skv. 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.``

Til upplýsinga er rétt að geta þess að ég hygg að í þeim lögum og þeirri grein sem þarna er vísað til sé í rauninni bara fjallað um það að til þess að fá ráðningu hjá ríkinu skuli menn vera orðnir 18 ára, þeir skuli vera heilir á geði og þeir skuli vera fjár síns ráðandi. Það eru þessi grundvallaratriði sem bara yfirleitt þarf til þess að fá starf en segja ekkert um hæfi manna. Það hefur sem sagt verið farið að þessum almennu starfsgengisskilyrðum ,,og að teknu tilliti til þeirrar menntunar og fyrri starfa, sem tilgreind voru í hjálagðri fréttatilkynningu um skipun í embættið, dags. 15. fyrra mánaðar.`` Það fylgdi síðan með.

Ljóst er af bréfi þessu frá forsrh. að í því er ekki að finna svör við þeim þremur einföldu spurningum sem beint var til hans og sem gætu varpað ljósi á hvort núverandi stjórnvöld hafa raunverulegan áhuga á að auka tiltrú á Seðlabankanum sem stofnun sem lúti sjálfstæðri og faglegri forustu en ekki pólitískri forustu Sjálfstfl. og Framsfl. Bréfið varpar líka ljósi á að í þessu máli fer forsrh. með ákvörðunarvald sem ekki lýtur aðhaldi frá einstaklingum, stofnunum eða almannavaldi, þar sem ekki þarf að auglýsa starfið, ekki eru gerðar til þess sérstakar kröfur, ekkert mat fer fram á þeim sem ætlað er að gegna starfinu og ekki þarf að rökstyðja ráðningu. Með öðrum orðum, það er ekki hægt að koma við neinu aðhaldi varðandi beitingu þessa valds sem í mínum huga stangast algjörlega á við alla réttarvitund og siðferðiskennd. Í samfélagi okkar á ekkert vald að vera til sem ekki er hægt að beita aðhaldi og eftirliti. Formlegir aðilar að þessu máli, um ráðningu í starf seðlabankastjóra, eru aðeins tveir, forsrh. og sá sem ráðinn er til starfans.

Að mínu viti er þetta afleitt fyrirkomulag þegar um æðstu stöður í samfélaginu er að ræða. Það verður að vera hægt að beita aðhaldi og fá umræðu um þær forsendur sem að baki lágu við ráðningu. Þá má eiginlega segja að að ýmsu leyti eigi það sama við um ýmsar aðrar stöður og sú spurning vaknar hvort rétt sé að skipunarvaldið í svona stöður eins og seðlabankastjóra eða hæstaréttardómara, svo það sé nú tekið, sé hjá ráðherra. Hér er um mjög mikilsverðar stöður að ræða í samfélaginu, æðstu stöður sem mikilvægt er að allir hafi tiltrú á og það er nauðsynlegt að mönnum blandist ekkert hugur um að fagleg sjónarmið ráði. Það má aldrei líta svo á að þeir sem þessum stöðum gegna séu taldir pólitískir fulltrúar ákveðinna sjónarmiða þótt þeir séu pólitískt skipaðir til starfa.

Það frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands sem hér er flutt hefur það að markmiði að tryggja eins og kostur er að fagleg sjónarmið ráði við skipan í embætti seðlabankastjóra og að ráðherra geti ekki komið sér undan því að rökstyðja ráðninguna eins og nú er. Þess vegna er gerð tillaga um að starf seðlabankastjóra verði auglýst þrátt fyrir að víðtæk sátt hafi verið um það þegar núgildandi lög voru sett að undanskilja þetta embætti auglýsingaskyldu. Að vísu komu ekki fram nein sérstök rök fyrir því af hverju það skyldi undanskilið auglýsingaskyldu önnur en þau --- þau komu fram í máli forsrh. á þeim tíma --- að það væri bara skrípaleikur og það væri verið að plata menn með því að auglýsa þetta embætti. Til dæmis tók hann að heill bekkur í Menntaskólanum við Hamrahlíð hefði sótt um seðlabankastöðuna þegar Finnur Ingólfsson, þáv. viðskrh., var ráðinn til að gegna starfi seðlabankastjóra. En af hverju sótti heill bekkur í Hamrahlíðinni um embættið? Jú, auðvitað til þess að sýna fram á fáránleikann í því að ekki væru gerðar neinar hæfniskröfur til þessa mikilvæga embættis. Þeir gátu auðvitað alveg sótt um, allir þessir krakkar, því ekki var gerð nein krafa um að menn uppfylltu eitthvert hæfi. Þau voru í rauninni að sýna fram á þennan fáránleika með því að sækja um og þá voru viðbrögðin ekki þau að setja inn hæfnisskilyrði. Nei, nei. Viðbrögðin eru þau að hætta að auglýsa af því að þetta sé skrípaleikur og það sé verið að plata. En ef starf er auglýst og ef einhver mjög hæfur einstaklingur sem sækir um af fullri alvöru fær það ekki á hann auðvitað rétt lögum samkvæmt til þess að láta reyna á þær reglur sem gilda í stjórnsýslulögum sem kveða m.a. á um jafnræðisregluna og að sá hæfasti skuli valinn.

Sáttin sem þó varð um það að auglýsa ekki byggðist m.a. á því að margir þingmenn vildu láta á það reyna hvort sú grundvallarbreyting sem gerð var á Seðlabankanum mundi ekki endurspeglast í breyttum viðhorfum ráðherra til embættis seðlabankastjóra. En sú virðist ekki raunin og segja má að forsrh. falli á fyrsta prófinu. Það er enn litið svo á að Framsfl. og Sjálfstfl. fari með pólitískt eignarhald á embættunum og eftir höfðinu dansa limirnir því að í opinberri umræðu í samfélaginu er litið svo á að nýleg skipun í embætti seðlabankastjóra hafi verið á forræði Framsfl. og næst verði skipunin á forræði Sjálfstfl. Það er opinskátt talað um það í samfélaginu að þegar Birgir Ísleifur Gunnarsson, sem er nú formaður bankaráðs, hætti sem slíkur eigi Sjálfstfl. það embætti. Menn hafa m.a. velt vöngum yfir því hvort núv. forsrh. sé á leiðinni í þann stól þegar hann yfirgefur ríkisstjórnina á næsta hausti. Og það er eins og það sé sjálfsagt og sjálfgefið að Sjálfstfl. hafi þetta sæti til ráðstöfunar.

Ef vilji Alþingis stendur til þess að bankastjórastöðum í Seðlabankanum verði skipt á milli stjórnmálaflokka, sem getur verið hugmynd ef út í það er farið, verður að gera það á grundvelli einhverra gegnsærra meginreglna um það hvernig þeim skuli skipt þannig að það sé þá uppi á borðinu og engum blandist hugur um það eða þá að skipt verði um bankastjóra með nýrri ríkisstjórn. Þá fari bara seðlabankastjórinn út í hvert skipti sem ný ríkisstjórn kemur inn og hún komi með sína seðlabankastjóra. Það er bara þetta tvennt sem kemur til álita, annaðhvort að reglurnar séu gegnsæjar um það hvernig hin pólitíska ráðning skuli vera eða þá að bankastjórarnir fari út með nýrri ríkisstjórn.

Flutningsmenn þessa frv. telja hins vegar rangt að fara inn á þá braut og algjörlega í ósamræmi við það sem tíðkast í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Þess vegna gerum við þessa breytingu sem liggur fyrir á þessu þskj., virðulegur forseti.

Að lokum vil ég nefna það að sú breyting sem hér er gerð tillaga um er efnislega samhljóða ákvæði sem var í 39. gr. frv. til laga um Seðlabanka Íslands sem flutt var á 116. löggjafarþingi af þáv. viðskrh., Jóni Sigurðssyni, og er því ekki nýtt af nálinni í sölum Alþingis.

Ég legg að lokum til, virðulegur forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og til meðferðar í efh.- og viðskn. á milli umræðna.