Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 17:12:15 (718)

2003-10-16 17:12:15# 130. lþ. 13.6 fundur 153. mál: #A Seðlabanki Íslands# (bankastjórar) frv., AKG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 130. lþ.

[17:12]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Frú forseti. Það fer ekki á milli mála að hér er afar mikilvægt mál á ferðinni, þ.e. þegar maður skoðar frumvarpið og grg. sem því fylgir. Hins vegar mætti ætla, þegar maður horfir yfir þingsalinn, að hér væri um eitthvert lítils háttar mál að ræða. Ég vil nýta þetta tækifæri til að taka undir með þeim hv. þm. sem hér hafa talað og gagnrýnt fjarveru þingmanna við umræður á Alþingi og sérstaklega það að formenn nefnda og í rauninni allir viðeigandi nefndarmenn skuli ekki --- ég vil leyfa mér að segja --- sjá sóma sinn í því að vera viðstaddir þegar mál er tekið til 1. umr.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá öðrum hv. þm. að tilgangur umræðunnar hlýtur að vera að fá fram mismunandi sjónarmið. Þau geta reyndar komið fram hjá öðrum en einungis þeim hv. þm. sem sitja í viðkomandi nefndum, þannig að það væri æskilegt að fá sem flesta til umræðunnar í málum almennt.

En ég hvet til þess að orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur verði tekin til skoðunar hjá forsn. þingsins, þ.e. að forsn. kanni það hvernig megi koma viðunandi skikkan á þetta mál í þinginu. Það getur ekki verið, frú forseti, að það teljist eðlilegt að einungis þingmenn viðkomandi flutningsflokks og hugsanlega einn til tveir úr öðrum flokkum sitji við umræðuna hverju sinni.