Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:45:41 (722)

2003-10-17 10:45:41# 130. lþ. 14.91 fundur 91#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þm. Helga Hjörvars. Það eru merkilegar upplýsingar sem hann kemur hér fram með. Í gærmorgun vorum við fulltrúar Alþingis í umhvn. að ræða nákvæmlega sömu mál og ósk var sett fram um það hvort við gætum fengið upplýsingar um hverjar óskir stofnana væru. Aðeins þannig gætum við metið það fjárlagafrv. sem væri verið að setja fram og við ættum að fara yfir í nefndum þingsins. Ef við vitum ekki hverjar þarfirnar og óskirnar eru, hvernig eigum við þá að leggja mat á það hvort það eru nægileg úrræði og hvort við getum fallist á þær tillögur sem birtast í fjárlagafrv.? Mér finnst mikilvægt að á þessum fundi var ekki synjað um þetta, heldur sagði formaðurinn að hún mundi að sjálfsögðu kanna möguleikana á þessu. Hins vegar kom fram í umræðunni í umhvn. að þetta væru upplýsingar sem væntanlega væru aðgengilegar í fjárln. og það mætti e.t.v. velta því fyrir sér hvort þar ætti að fá upplýsingarnar því að allir flokkar eiga þar fulltrúa. Nú er það upplýst að þar er synjað um þessar mikilvægu upplýsingar og við eigum enn sem fyrr að taka ákvarðanir á grundvelli vinnu sem við höfum ekki tekið þátt í. Ég gagnrýni þetta harðlega.