Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:47:08 (723)

2003-10-17 10:47:08# 130. lþ. 14.91 fundur 91#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), MS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:47]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Það mál sem hv. þm. Helgi Hjörvar ber hér upp höfum við fjallað um í fjárln. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um nokkurt álitamál að ræða. Það varð niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að vilja ekki óska eftir þessum gögnum. Það eru ýmis gögn sem ganga á milli einstakra stofnana og viðkomandi fagráðuneyta í undirbúningi að gerð fjárlagafrv. Þetta eru vinnugögn og það var skoðun okkar að það væri ekki ástæða til að kalla eftir þeim. Fjárlagagerðin er samkvæmt rammafjárlagaforminu þar sem ráðuneyti fá sína ramma og þeim er ætlað að ráðstafa fjárheimildum innan þeirra þannig að þar er um vinnuferli að ræða. Ég vil taka það fram að eins og fram hefur komið hefur fjárln. ákveðið að fara í ákveðna vinnu við að endurskoða verkferla og vinnubrögð í kringum vinnslu fjárlagafrv. og ég lýsti því í nefndinni í morgun að við mundum að sjálfsögðu taka þetta mál upp í þeirri vinnu. En þetta var niðurstaða meiri hlutans í morgun eins og fram hefur komið.