Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:48:26 (724)

2003-10-17 10:48:26# 130. lþ. 14.91 fundur 91#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er vissulega umhugsunarvirði hve oft það kemur fyrir að fæti sé brugðið fyrir þingmenn til þess að koma í veg fyrir að þeir geti með eðlilegum hætti sinnt skyldum sínum á hv. Alþingi. Maður veltir fyrir sér í þessu tiltekna máli, þegar þingmenn kalla eftir fjárlagabeiðnum einstakra stofnana og því er synjað, hvað það er sem ekki þolir dagsins ljós. Eða hver er skýringin á því að forstöðumenn stofnana eða ráðuneyta neita slíkri eðlilegri beiðni? Það er óþolandi að þingmenn, sem hafa sérstakan stjórnarskrárvarinn rétt til þess að leita upplýsinga og þingsköp þar sem líka eru ákvæði sem heimila þeim að leita upplýsinga, skuli síðan þurfa að sækja rétt sinn sem almennir borgarar gegnum upplýsingalögin. Það er auðvitað óþolandi, herra forseti, og þess vegna er það eðlileg ósk sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar að leita til forsætisnefndar með þetta mál. Það er kominn tími til, og þótt fyrir löngu hefði verið, að forsætisnefnd taki upp alvarlegar umræður um það hvernig þingmenn geti með eðlilegum hætti leitað réttar síns þegar þeir kalla eftir upplýsingum hjá framkvæmdarvaldinu. Þess vegna styð ég ósk hv. þingmanns um að þetta mál fari til forsætisnefndar.