Þingsályktunartillaga um afléttingu veiðibanns á rjúpu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 10:59:57 (731)

2003-10-17 10:59:57# 130. lþ. 14.98 fundur 97#B þingsályktunartillaga um afléttingu veiðibanns á rjúpu# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér kom fram. Það er búið að leggja inn á borð þingmanna þáltill. um að rjúpnabanninu verði aflétt. Ég hlakka mjög til umræðnanna um það mál hér á Alþingi. Ég finn að það er mikill hiti, bæði í samfélaginu og í þingmönnum hér á Alþingi, út af því máli. En það eru allir sammála um að grípa þurfi til verndaraðgerða vegna rjúpnastofnsins. Hann er í mjög bágbornu ástandi. Hann hefur vaxið um 20% á milli ára en ætti að hafa vaxið um 50%. Þannig eru allir sammála um að grípa þurfi til aðgerða.

Ég hef farið eftir ráðgjöf okkar færustu sérfræðinga og gripið til þess að banna rjúpnaveiðar í þrjú ár vegna þess að önnur úrræði dugðu ekki til.

Í þessari þáltill. sem hér hefur verið borin fram á borð þingmanna --- það á eftir að mæla fyrir henni --- eru tvö úrræði tínd til sem bent er á að umhvrh. eigi að grípa til, kjósi hann svo. En til þeirra úrræða er ekki hægt að grípa nema lögum sé breytt. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að benda á það. Ég get ekki sett á kvóta á hvern veiðmann nema lögum sé breytt og ekki sett á tímabundið sölubann nema lögum sé breytt. Í tillögunni kemur ekki fram að það eigi að breyta lögum.

Ég flutti sjálf mál á síðasta þingi um að setja á tímabundið sölubann til fimm ára. Það felldi umhvn. í umfjöllun sinni, bæði stjórn og stjórnarandstaða. Þar fór fremstur í flokki 1. flm., hv. þm. Gunnar Birgisson, sem nú flytur þessa tillögu um tímabundið sölubann.

Ég hlakka að sjálfsögðu mjög til umræðunnar á þinginu, bíð eftir að umhvn. fjalli um málið og mun þá sjá hvað kemur út úr því. Aðalatriðið er að við verndum rjúpnastofninn í þessari stöðu og það getum við best gert núna með þriggja ára veiðibanni.