Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 11:03:29 (734)

2003-10-17 11:03:29# 130. lþ. 14.91 fundur 91#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), ISG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Þetta er orðin dálítið sérkennileg umræða hérna því að það kom eitthvert ,,intermezzo`` hér um rjúpuna í umræðu um störf fjárln. og beiðni þingmannsins Helga Hjörvars um að fá tiltekin gögn sem varða lögregluna í Reykjavík.

Ég kem eiginlega upp til þess að bregðast við orðum þingmannsins Einars Odds Kristjánssonar hér áðan, sem mér fundust ansi sérkennileg.

(Forseti (BÁ): Háttvirts.)

Háttvirts þm. Einars Odds Kristjánssonar, afsakaðu forseti.

Málefni lögreglunnar í Reykjavík hafa alltaf verið mjög viðkvæm þegar kemur að fjárlagatillögum. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur áður farið fram á að fá þau gögn sem lögreglan í Reykjavík leggur inn í ráðuneytið sem vinnslugögn þegar verið er að vinna fjárlagafrv. og ekki fengið. Nú er þingmanni öðru sinni a.m.k. synjað um þessi vinnugögn.

Svarið er fengið hér núna hvernig á því stendur. Það kemur fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að í sjálfu sér sé ekkert athugavert við að fá þessi gögn en nefndin vilji ekki fá þau. Hún vill ekki kalla eftir þeim. Þingmaðurinn sagði: Við viljum ekki biðja um þessi gögn og meiri hlutinn ræður.

Þannig er það sem þessir menn hugsa og þannig er það sem þeir vinna: Þið getið bara étið það sem úti frýs, við ráðum í meiri hlutanum.

Þannig standa málin þó að við séum með upplýsingalög í landinu sem eiga að tryggja mjög greiðan aðgang, ekki síst þingmanna, að gögnum og upplýsingum í slíkum málum. Að heyra svo líka þingmanninn háttvirtan tala um að þetta væru rammafjárlög en ekki þarfafjárlög. Bíddu við, eiga rammafjárlög ekki að taka mið af einhverri þörf? Eiga menn þá ekki a.m.k. að leggja mat á þörfina, hver hún er? Rammafjárlög eru ekki bara gripin af himnum ofan, þau hafa einhverjar viðmiðanir. (HBl: Það dettur nú ýmislegt af himnum.)