Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 12:01:00 (744)

2003-10-17 12:01:00# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[12:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þingmenn Samf., Bryndís Hlöðversdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir, hafa gert þessu máli góð skil og ég þarf ekki miklu við að bæta --- örstuttar ábendingar þó.

Í náttúruverndaráætluninni 2004--2008 er talað um alþjóðlegt samstarf um vernd jarðfræðiminja og landslags sem sé skemmra á veg komið en það sem lýtur að vernd lífríkisins. Þó hefur Evrópuráðið samþykkt sérstakan landslagssáttmála. Ég vildi bara benda á þetta vegna þess að við höfum verið að vísa hér í umhverfisþingið og það er ekki óeðlilegt vegna þess að þar var komið víða við í því sem við erum að ræða hér í dag, hafið og landið. Þá hlýt ég að benda á það hve margir ræddu undirbúning að ákvarðanatöku. Það kom aftur og aftur fyrir að fólk ræddi undirbúninginn, vöntun á nauðsynlegum gögnum og kortum, nauðsyn þess að afla þekkingar og upplýsinga og þróa aðferðir til að meta, flokka og bera saman svæði, beinlínis þetta að velja viðmið. Það var talað um landslagið, að það yrði að koma inn í matið á landinu. Það var líka talað um hætturnar og bent m.a. á eldborgirnar sem eru að hverfa og votlendið sem er að hverfa. Allt er þetta mjög mikilvægt í umræðunni um að kortleggja landið og skoða hvar hættur leynist, hvað við eigum að vernda og koma sér saman um hvað sé mikilvægt þegar á að meta breytingar á landinu.

Þegar verið var að skoða hvað ætti að hafa að leiðarljósi var líka afskaplega mikil áhersla á að fyrst yrðu viðfangsefnin að koma og síðan viðmiðin til þess að taka á þeim viðfangsefnum. Aftur var talað um landslagið, bæði náttúrulegt og búsetutengt, jarðminjarnar, hverina, hrygginn með eldstöðvunum og jöklana. Mjög mikil áhersla var lögð á það að við héldum að við ættum svo mikil fágæti en að fágæti minnkar hjá okkur, fágæt náttúra, vegna vaxandi mannfjölgunar á Íslandi og að við teygjum okkur sífellt inn á víðernin. Bent var á að víðernin væru að dragast saman, við erum að breyta landinu með framkvæmdum, ýmiss konar röskun, vegagerð og línulagningu. Norðmenn hafa verið að skoða þessi mál hjá sér og allt í einu gerðu þeir sér grein fyrir því að þeir ættu ekki eins mikið ósnortið land og þeir hefðu talið og óskuðu. Nú eru þeir að skoða hvað þeir eigi af víðernum og hvað þeir þurfi að taka frá af þeim því að hingað til hefur verið bitið og nartað í þetta mikilvæga land.