Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 12:09:16 (747)

2003-10-17 12:09:16# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[12:09]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum einmitt verið að sýna þessum verkefnum skilning. Við höfum stóraukið framlögin í rannsóknir á náttúru Íslands. Allir sem vilja vera réttmætir geta séð það og flett því upp í fjárlögum síðustu ára, það er búið að stórauka framlög til rannsókna á náttúru Íslands. Áfram verður unnið í því.

Varðandi deilurnar um umhverfismat og úrskurð á því hafa stærstu deilurnar orðið um Kárahnjúkavirkjun og Þjórsárverin sem eru þau svæði sem eru líklega einna best rannsökuð á Íslandi. Það virðist því ekkert hanga saman hvar deilurnar verða og hvað er mest rannsakað. Menn hafa bara mismunandi skoðanir á þessum framkvæmdum og eru aðallega að deila um það, líka vegna þess í hvaða ferli þetta mat er sem við munum reyndar vilja breyta. Bara mjög lítill hluti af þessum deilum er út af gögnunum sem þar lágu til grundvallar.