Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 12:10:20 (748)

2003-10-17 12:10:20# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hæstv. umhvrh. um þetta en kannski leysum við málið ekki hér. Ég held að reynslan frá mörgum öðrum ríkjum sýni að eftir að farið er að beita þessum aðferðum markvisst og eftir að búið er að fara í þessa grunnflokkun og skráningu hefur reynslan verið sú að það er ekki deilt jafnmikið og áður um framkvæmdir.

Hæstv. umhvrh. nefndi að málaflokkurinn Rannsóknir á náttúru Íslands hefði verið efldur verulega. Við í hv. umhvn. vorum að fara yfir fjárlagafrv. og þar kemur m.a. fram að í málaflokknum Rannsóknir undir umhvrn. --- þar eru fjárlagaliðirnir Náttúrufræðistofnun, Náttúrustofur, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Veðurstofa Íslands --- er um að ræða að heildarfjárveiting til málaflokksins lækkar um 21,8 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar launa- og verðlagsbreytingar. Það er kannski alveg í samræmi við það sem hæstv. umhvrh. heldur fram. Ég dreg sérstaklega fram þennan tímabundna lið sem fellur niður sem var beinlínis til þess að þróa samræmdar aðferðir við öflun gagna um náttúrufar. Mér finnst það ekki vera, herra forseti, í samræmi við þessa forgangsröðun sem kom svo sterklega fram á umhverfisþinginu. Kannski eru eðlilegar skýringar á þessu en mér finnst svolítil synd að í nákvæmlega þetta skuli ekki vera meira lagt og þá er ég ekki að tala um neina byltingu, heldur einungis að við höldum markvisst áfram á þessari braut.