Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 12:12:13 (749)

2003-10-17 12:12:13# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allir sem vilja skoða málin með réttmætum hætti sjá að við höfum stóraukið framlögin til rannsókna á náttúrufari landsins. Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er búið að stórefla rannsóknirnar. Þangað hafa verið ráðnir mjög margir nýir sérfræðingar á síðustu árum þannig að þessi stofnun er að verða með þeim stærri hjá umhvrn. Það er líka búið að efla Landmælingar Íslands sem eru í kortagerðinni. Það er búið að setja yfir 500 millj. í rammaáætlun, hluti af því fer til rannsókna á náttúru Íslands. Það verður líka haldið áfram að vinna í rammaáætlunum, líklega á næsta ári. Allir sem vilja vera réttmætir sjá að fjárútlát til rannsókna hafa verið stórlega efld. Það er líka eðlilegt. Ég er ekki að sjá á eftir því fjármagni.

Við erum á góðri leið og ég tel eðlilegan gang í rannsóknunum, það er mitt mat, og eðlilegt líka að horfa til þess að við erum fámenn í þessu geysistóra landi. Ef skrá ætti á mjög stuttum tíma allt sem hér fyrirfinnst yrði það samfélaginu því miður ofviða. Það er bara staðreynd málsins.

Það er talað um að það ætti að vera hægt að hafa samband við ríkisstofnanir og fá allar náttúrufarsupplýsingar um einhver svæði ef maður vildi fara í framkvæmd eins og víða er erlendis. Hér þurfa fyrirtækin sjálf oft að afla þessara rannsókna í umhverfismati. Ég tel að það hafi verið talsverður sparnaður fyrir almenna skattgreiðendur að þessi fyrirtæki, t.d. orkufyrirtækin, hafi sjálf þurft að afla þessara gagna. Auðvitað er það slæmt fyrir þau en það er gott fyrir skattgreiðendur sem ella hefðu þurft að greiða hluta af þessum gögnum. Ég tel að við séum á góðri leið, virðulegur forseti, með þessi mál, búin að stórauka fjárframlög til náttúrufarsrannsókna og munum halda áfram að vinna í þeim á komandi árum.