Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:12:27 (757)

2003-10-17 13:12:27# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), ISG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:12]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er á ferðinni er án efa fordæmalaust í íslenskri réttarsögu og sögu Alþingis. Það sem hér er á ferðinni er að ríkisstjórnin hefur orðið ber að því í tvígang að brjóta stjórnarskrána, að brjóta lög um sama málið. Fyrst gerist hún brotleg við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og síðan núna við eignarréttar\-ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er ekki bara að það sé búið að dæma þessa ríkisstjórn í tvígang fyrir að brjóta íslensk stjórnarskipunarlög, það er búið að dæma hana í þrígang í þessu máli því við skulum ekki gleyma því að það þurfti að fara fyrir dómstólana til þess að særa fram minnisblað sem fylgdi skipan sérfræðinefndar sem samdi frv. til laga sem núna hefur verið dæmt sem ólög. Í þrígang er búið að dæma ríkisstjórnina í þessu máli og í þrígang hefur hún brotið lög á tilteknum hópi fólks sem er meðal þeirra sem hvað mest eiga undir því að stjórnvöld standi vörð um réttindi þeirra, sem eiga lífsviðurværi sitt undir því, öryrkjar í landinu. Það er brotið gegn mannréttindaákvæðum. Það er brotið gegn eignarréttarákvæðum. Og nú segja stjórnarþingmenn hér: ,,Ja, þetta er nú lítið mál. Við bara borgum þetta til baka og þá er málið útrætt og þá erum við lausir allra mála.`` En það er ekki svo. Ríkisstjórnin og meiri hluti þingsins er ekki laus allra mála. Þetta er áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og þeim meiri hluta sem hún styðst við á hinu háa Alþingi. Hún getur ekki skýlt sér á bak við það, ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis, að þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Þetta var einbeittur brotavilji, hæstv. forseti, sem endurspeglast í þessari lagasetningu, einbeittur brotavilji, því ríkisstjórnin var vöruð við og meiri hluti Alþingis var varaður við. Það gerði m.a. stjórnarandstaðan hér á þingi og ég vil vísa sérstaklega til tveggja þingmanna, tveggja lögfræðinga í röðum Samfylkingarinnar, hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Það kom mjög skýrt fram í þeirra máli að afturvirknin í þessum lögum stæðist ekki stjórnarskrá. Í máli Lúðvíks Bergvinssonar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ég ætla að leyfa mér að halda því fram, virðulegi forseti, að hér sé í raun og veru um eignaupptöku að ræða.

Þá spyr maður: Hvað skyldi stjórnarskráin segja um slíka eignaupptöku? Jú, hún segir að enga eign megi skerða nema fullar bætur komi fyrir. Ég fæ því ekki betur séð ef keyra á þetta í gegn, en þá sé enn og aftur verið að brjóta gegn stjórnarskránni, enn og aftur.``

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir flutti hér álit minni hluta heilbr.- og trn. þar sem nákvæmlega þetta sama kom fram. En forsrh. sakaði ræðumenn þá, eins og hann gerir núna, um stóryrði og sagði að þessir þingmenn, framganga þeirra og málatilbúnaður væri fordæmalaus hér á Alþingi. Og hann sagði, með leyfi forseta:

,,Vönduð skýrsla lögfræðinga og frv. ríkisstjórnarinnar hrindir þessum tilefnislausu og siðlausu ásökunum.``

Riddarinn ráðagóði, Jón Steinar Gunnlaugsson, hefur ekki reynst ráðhollur í þessu máli. Hann hefur ekki reynst góður lögfræðingur í þessu máli og er kominn reyndar aftur fram á sjónarsviðið í Morgunblaðinu í dag.

Virðulegur forseti. Halldór Ásgrímsson sagði í umræðum á þingi að hann og ríkisstjórnin öll ætti að segja af sér ef hún væri vísvitandi að brjóta gegn stjórnarskránni. Hún braut vísvitandi gegn stjórnarskránni. Hún gerði það með (Forseti hringir.) augun opin og hún á að segja af sér.

(Forseti (HBl): Hv. þm. hefur þrívegis sagt að ríkisstjórnin hafi vísvitandi brotið gegn stjórnarskránni. Það eru óþingleg ummæli.)

Það eru ekki óþingleg ummæli, virðulegi forseti. Það er mitt mat að ríkisstjórnin hafi brotið vísvitandi af sér. Hún var vöruð við. Það kom fram í umræðum á þingi að hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða og ég tel að þegar menn ganga engu að síður fram eins og þeir gerðu á þeim tíma þá sé um eindreginn brotavilja að ræða og menn séu vísvitandi að gera það sem þeir gera, vitandi vits.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegur forseti.

(Forseti (HBl): Ég vil segja við hv. þm. að þessi skýring hennar er fullgild. En ég vil biðja hv. þm. að gæta háttvísi í sínum orðum og ég tel að við eigum að gera það og ég veit að hv. þm. er mér sammála um það.)

Virðulegur forseti. Úr því að forseti beinir þessum orðum til mín, að hann hafi tekið rök mín (Gripið fram í.) gild þá vil ég að það komi fram, virðulegur forseti, að mér þykir heldur miður að vera að ósekju trufluð í ræðustóli Alþingis.

(Forseti (HBl): Ég sagði ekki að ég hefði gert það að ósekju, hv. þm. En ég vil samt sem áður segja, eins og ég sagði áður, að mönnum ber að gæta hófs.)