Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:17:40 (758)

2003-10-17 13:17:40# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er stundum eins og hv. þingmönnum sé ekki sjálfrátt í málflutningi. Hverjum dettur það nú í hug, í alvöru, sem hugsar málið að einhver þingmaður hér inni, einhver ráðherra eða ríkisstjórnin í heild ætli sér vísvitandi að brjóta stjórnarskrána? Gera menn sér ekki grein fyrir því hvílíkar ásakanir þar eru á ferð?

Það var reynt að halda þessu fram í janúar árið 2001. Þingmaðurinn sem það gerði, hv. þm. Ögmundur Jónasson, endaði nú með því, ef ég man rétt, að hrökklast til baka með þann málflutning og hálfpartinn biðjast afsökunar á honum, enda er slíkur málflutningur að sjálfsögðu ekki við hæfi. En það er nú eins og menn hafi ekkert lært af öllum þessum fúkyrðaflaumi sem fylgdi þessu máli, af stóryrðunum öllum sem gengið hafa í þessu máli innan þings sem utan. Það er eins og menn hafi ekkert lært og geti ekkert af þessu lært.

Það sem upp úr stendur núna eftir dóm Hæstaréttar í gær er þetta: Það þarf ekki að breyta lögum. Lögin sem samþykkt voru hér nr. 3/2001 standa. Það er meginniðurstaðan í þessu máli.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér: Já, en dómkröfurnar vísuðu bara aftur í tímann. --- Gott og vel með það. En hvers vegna er þá Hæstiréttur að leggja lykkju á leið sína til að útskýra af hverju aðalmálsástæðan í því máli var röng? Það gerði hann í rökstuðningi sínum með dómnum, eins og hæstv. forsrh. las hér upp: Ekkert í þeim --- þ.e. röksemdum fyrir fyrri dóminum --- veitir tilefni til þeirrar ályktunar að löggjafanum sé óheimilt að láta tekjur maka hafa áhrif á tekjutryggingu öryrkja til skerðingar, ekkert. Þetta er auðvitað kjarni málsins og þetta er ástæðan fyrir því að Hæstiréttur leggur lykkju á leið sína til að koma þessu sjónarmiði að. Með öðrum orðum, við hér í þinginu þurfum ekki að breyta lögum nr. 3/2001. Það sem við þurfum að gera er að við þurfum að gera upp vegna áranna 1999 og 2000, og það munum við gera þegar útreikningar liggja fyrir. Það mun koma tillaga um það frá okkur í ríkisstjórninni með hvaða hætti rétt sé að breyta fjárlaukalagafrv. til þess að koma til móts við þetta.

Það er líka svo, og það er þriðja atriðið í þessu máli, að það hefur verið fallist á rökstuðning ríkisstjórnarinnar hvað varðar það að hin almennu fyrningarákvæði laga gildi um kröfur í þessu máli, eins og í öðrum málum. Um það var tekist verulega á hér í þinginu á sínum tíma. Þá vantaði nú ekki stóryrðin og ásakanirnar um það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon las upp hluta af því.

Ég held að menn ættu nú aðeins að reyna að læra af þessu máli, að það eru ekki stóryrðin eða fúkyrðin eða gífuryrðin sem gilda. Það er ekki þannig. Menn verða að reyna að komast að sanngjarnri niðurstöðu í öllum málum, að sjálfsögðu (SJS: Í dóma ...?) og þá gildir það ekki að tala með þessum hætti, hv. þingmaður. (Gripið fram í: ... dómar sem gilda.) Það er hæstaréttardómurinn sem gildir, (Gripið fram í: ... tvisvar.) hann segir okkur það að lögin nr. 3/2001 standa. Það þarf að laga uppgjörsatriðin vegna áranna 1999 og 2000 en öll gífuryrðin sem stóðu út úr hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og öðrum falla dauð og ómerk. (Gripið fram í: Er þetta búið?)

Ef menn ætla að tala hér um það að einhverjir þurfi að segja af sér, biðjast afsökunar eða þess háttar legg ég nú til að þessir herrar --- eins og þeir kalla nú stundum aðra menn hér inni --- þessir herrar líti í eigin barm.