Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:24:51 (760)

2003-10-17 13:24:51# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:24]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Þetta mál má fjalla um frá ýmsum hliðum. Annars vegar má fjalla um það út frá dómi Hæstaréttar og hins vegar í pólitísku ljósi.

Ef við lítum á dóm Hæstaréttar má segja að hann feli í sér að málatilbúnaður hv. stjórnarandstöðu sé í öllum meginatriðum hrakinn, meira að segja í því ákvæði sem lýtur að uppgjöri við ákveðinn hluta öryrkja á árunum 1999 til 2000, þar eru forsendur Hæstaréttar byggðar á eignarréttar\-ákvæði en ekki jafnréttisákvæði eins og hefur verið forsenda í málatilbúnaði stjórnarandstöðunnar allan tímann.

Hins vegar segir í dómi Hæstaréttar að það séu málefnaleg rök að tengja bætur öryrkja við tekjur maka. Það er rétt að minna á það, herra forseti, að hér hafa stjórnarandstæðingar haldið digurbarkalegar ræður og haldið því fram að sú hugsun væri brot á stjórnarskrá. Hæstiréttur hefur kveðið upp sinn úrskurð og segir að ríkisstjórnin hafi haft rétt fyrir sér hvað það varðar.

Ef við lítum hins vegar á þetta út frá pólitísku sjónarmiði, út frá túlkun á hugtakinu ,,jafnrétti í velferðarkerfi`` og að ,,auka jöfnuð`` --- sem hefur oft komið hér til umræðu og virðist vera mikill vilji til þess, ekki síst hjá stjórnarandstæðingum, að auka jöfnuð --- getum við spurt okkur, og ég bið stjórnarandstöðuna að gefa skýr svör við því: Er það jafnrétti að líta algjörlega fram hjá tekjum maka þegar ákveðnar eru bætur til öryrkja og til annarra, alveg óháð því hverjar þær bætur eru, þótt maki hafi allt að því eina milljón á mánuði, eins og mörg dæmi eru um? (Gripið fram í: Á ekki bara að tekjutengja ... þingmanna?) Á að líta fram hjá því?

Það er líka rétt að vekja athygli á því að í þessum dómi er ekki verið að fjalla um einhleypa öryrkja. Þeir munu ekki njóta góðs af þessum dómi.

Við hljótum í framhaldinu að spyrja: Munu sömu forsendur gilda um ellilífeyri? Á þá líka að horfa algjörlega fram hjá tekjum maka, hvort þeir eru með milljón eða meira á mánuði, á ekki að líta á hinar sameiginlegu tekjur heimilisins? Ég hlýt að spyrja og biðja um skýr svör frá hv. stjórnarandstöðu um það hvort það sé sú leið sem best verður farin til að auka jöfnuð og koma til móts við þá í okkar samfélagi sem helst þurfa á samfélagslegri aðstoð að halda? (Gripið fram í.) Ég vil fá skýr svör frá stjórnarandstöðu um það. Dómurinn hefur verið kveðinn upp, uppgjör mun eiga sér stað vegna áranna 1999 og 2000 fyrir hluta öryrkja og það verður litið á hjón sem hjón með sameiginlegar tekjur. Það er ákveðið grundvallaratriði. Ef stjórnarandstaðan hefur breytt um skoðun, áratugaskoðun á því, eru það merkileg tíðindi.