Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:27:56 (761)

2003-10-17 13:27:56# 130. lþ. 14.96 fundur 96#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:27]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Það kemur ekki á óvart að sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum í okkar ágæta landi skuli hafa orðið uppvís að því að hafa brotið á eigin þegnum með gróflegum hætti, svo grófum að hún hefur brotið stjórnarskrá. Þeir þingmenn sem nú sitja í ríkisstjórn og þeir stjórnarþingmenn sem sátu á 126. löggjafarþingi hafa nú orðið uppvísir að því, að mati þess sem hér talar, að hafa brotið þann trúnaðareið sem þeir undirrituðu að stjórnarskrá þegar þeir settust á þing í fyrsta skipti.

Þessi trúnaðareiður, sem allir þingmenn undirrita, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég undirritaður sem kosinn er þingmaður til Alþingis Íslendinga heiti því að viðlögðum drengskap mínum og heiðri að halda stjórnarskrá landsins.``

Það var margoft búið að vara stjórnarliða við þegar þetta mál var til umræðu á 126. löggjafarþingi. Aðvörunarorðin voru mjög sterk og afdráttarlaus og studd mörgum góðum rökum. Hv. þm. Sverrir Hermannsson, fyrrverandi formaður Frjálslynda flokksins, flutti margar ræður þar sem hann reyndi að koma vitinu fyrir sína gömlu félaga í Sjálfstfl.

Sverrir sagði m.a. þann 17. janúar, eftir að fyrri dómurinn féll í hinu svokallaða öryrkjamáli, þegar það frv. ríkisstjórnarinnar sem Hæstiréttur hefur nú fellt lá fyrir þinginu, með leyfi forseta:

,,Mér hefur líka verið hugsað til járnkanslarans míns, Bjarna Benediktssonar, og hvaða viðhorf hann hefði haft til þessarar málsmeðferðar sem nú reynum við af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hann hefði að vísu ekki þekkt gamla flokkinn sinn aftur. Hann hefði ekki þekkt flokk sem hefur yfirgefið gömlu hugsjónir sínar um stétt með stétt, flokk sem predikaði eign handa öllum, en framfylgir nú boðorðinu eign handa örfáum. Hann hefði ekkert kannast við flokk sem á sinni tíð barðist fyrir frelsi einstaklingsins og framtaki, en nú er frelsið aðeins til handa fáum svo við tökum dæmi af sókninni í sjávarauðlindina.``

Hv. þm. Sverrir Hermannsson varaði mjög sterklega við þessum gjörningi og nú hefur komið á daginn að hann hafði hárrétt fyrir sér. Hann sagði m.a.:

,,Ég ætla engum orðum eða getum að því að leiða hvernig hæstv. forseta lýðveldisins verður um þegar þar að kemur að hann á að undirrita þessi lög svo að þau nái framkvæmd því að forsetinn hefur svarið dýran eið við stjórnarskrá Íslands. Ég ætla engum getum að þessu að leiða. En trúlega verða það þung spor sem hann þarf þar að stíga.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að biðja og segja að Alþingi gái að sér og sóma sínum.``

Herra forseti. Stjórnarmeirihluti Alþingis með ráðherra ríkisstjórnarinnar í fararbroddi skeytti eins og oft áður ekki um viðvaranir í framkomu sinni gegn þegnum landsins. Þetta ber að harma. Það ber að harma að ríkisstjórnin hafi gert þetta. Þetta verður sennilega ekki í síðasta sinn sem hún gerir þetta. Hún hefur gert þetta áður og hún mun endurtaka þennan leik, því miður.