Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 13:56:16 (767)

2003-10-17 13:56:16# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Þegar spurt er hvað líði viðræðum ríkis og sveitarfélaga vegna tónlistarnáms á framhaldsskólastigi og hvenær sé von á niðurstöðu, þá er svarið eftirfarandi:

Í kjölfar óska Samtaka ísl. sveitarfélaga frá sl. vori um endurskoðun á kostnaðarskiptingu og fyrirkomulagi tónlistarkennslu á framhaldsskólastigi ákvað ég í júní að óska eftir tilnefningu tveggja fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga í sérstaka viðræðunefnd um málefnið. Á móti tilnefndi ráðuneytið þrjá fulltrúa í nefndina. Í umboði nefndarinnar kemur fram að henni er ætlað að fjalla um kostnaðarskiptingu og fyrirkomulag tónlistarkennslu á framhaldssólastigi. Nefndin hefur þegar haldið fjóra fundi og stefnt er að því að hún ljúki störfum fyrir áramót.

Mér þykir rétt að taka það fram að nefndin fjallar ekki um samskipti sveitarfélaga og málefni nemenda sem stunda tónlistarnám fjarri lögheimili sínu, enda er þar um að ræða innri málefni sveitarfélaga sem þeim ber að leysa sín á milli á grundvelli fyrrgreindra laga og ríkisvaldið hefur enga aðkomu að því deilumáli.

Samhliða þeirri vinnu sem fram fer í nefndinni hef ég ákveðið að skipa nefnd er geri tillögur um heildarendurskoðun á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985.

Þá er einnig spurt: Hver er ábyrgð ríkisvaldsins á tónlistarnámi á framhaldsskólastigi?

Frá gildistöku fyrrgreindra laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla árið 1985 báru ríki og sveitarfélög að jöfnu greiðsluskyldu á launum kennara og skólastjóra þeirra tónlistarskóla sem hlotið höfðu staðfestingu sveitarstjórna og viðurkenningu ráðuneyta. Með breyttum verkaskiptasamningi ríkis og sveitarfélaga árið 1989 og lagabreytingum í kjölfar hans hvílir greiðsluskylda vegna launakostnaðar tónlistarskóla nú á sveitarfélögunum einum óháð skólastigi og aldri nemenda. Ráðuneytið ber hins vegar sem fyrr ábyrgð á viðurkenningu nýrra tónlistarskóla og gerð samræmdrar námskrár fyrir tónlistarfræðslu á öllum skólastigum, þ.e. á hinum faglega þætti.

Spurt er: Hver er ábyrgð ríkisvaldsins á kennaranámi í tónlist og til hvaða aðgerða er gert ráð fyrir að gripið verði svo að byggja megi aftur upp slíkt nám?

Nám tónmenntakennara í grunnskólum hefur verið á hendi Kennaraháskóla Íslands og að hluta í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Kennaranám þeirra kennara er kennt hafa í tónlistarskólum hefur um langt árabil verið hjá Tónlistarskólanum í Reykjavík og ríkissjóður hefur veitt sérstakan styrk í því augnamiði. Á árinu 2002 var tekin ákvörðun um að færa kennaranám í listum til Listaháskóla Íslands eins og gerð er grein fyrir í frv. til fjárlaga fyrir árið 2003, en þar segir m.a. í umfjöllun um Listaháskóla Íslands, með leyfi forseta:

,,Hins vegar er um að ræða 13 millj. kr. hækkun vegna fyrirhugaðs viðbótarsamnings um að boðið verði upp á kennaranám fyrir allt að 30 nemendur á ári. Miðað er við að innrita 15 nemendur haustið 2002 og að 15 bætist við haustið 2003 þannig að meðalfjöldinn verði 22,5 á árinu. Gert er ráð fyrir að framlög til kennaranámsins verði 19,2 millj. kr. árið 2004 þegar deildin hefur náð fullri stærð. Á sama tímabili mun fjara út jafnhátt framlag til tónlistarkennaranáms [þ.e. í Tónlistarskólanum í Reykjavík] á vegum [liðar] 563 Tónlistarskólinn í Reykjavík.``

Ákvörðun þessi var tekin í fullu samráði við þáverandi skólastjóra og formann skólanefndar Tónlistarskólans í Reykjavík.

Þá var einnig spurt: Hver er staða Tónlistarskólans í Reykjavík í skólakerfinu og Listaháskóla Íslands með tilliti til kennaranámsins?

Ég hef áður greint frá stöðu Tónlistarskólans í Reykjavík. Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnun sem hefur gert samning við ríkið um listnám á háskólastigi, þar með talið tónlistarnám. Tónlistardeild Listaháskólans var stofnuð árið 2001 og er á sínu þriðja starfsári. Námið er á þremur brautum: hljóðfæraleikur/söngur, tónsmíðar/nýmiðlar og tónlistarfræði/almenn braut. Þó að skólinn hafi ekki stofnað sérhæft kennaranám til fyrstu háskólagráðu er lögð mikil áhersla á að nemendur á tónlistarbraut séu undirbúnir undir kennarastörf. Almenna brautin innan tónlistardeildarinnar er námsleið fyrir nemendur sem vilja öðlast góða almenna tónlistarþekkingu á sem víðustu sviði, þar á meðal á sviði kennslu þó að ekki sé um að ræða eiginlegt kennaranám eða eiginlega kennarabraut.

Stefnt er að því að allir nemendur í tónlistardeild og sérstaklega nemendur sem hafa stundað nám á almennu brautinni geti jafnframt tekið viðbótarnám til kennsluréttinda. Í kennsluréttindanáminu í listum er lögð sérstök áhersla á kennslufræði myndlistar, kennslufræði leiklistar og kennslufræði tónlistar.

Tími minn er að renna út. Ég mun hér á eftir bæta við þessar upplýsingar. En ég ætla aðeins að geta þess í lokin að innan Listaháskóla Íslands hafa menn mjög stílað inn á (Forseti hringir.) samanburð við nágrannalöndin þar sem víðast hvar er unnið að því að flytja kennaranám yfir á magistersstig, þ.e. að menn klári tónlistarkennaranám eftir grunnnám í háskóla.