Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:04:20 (769)

2003-10-17 14:04:20# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt að efna til viðræðna milli ríkis og sveitarfélaga um breytingar á því fyrirkomulagi sem er í gildi um einstök mál eins og t.d. tónlistarfræðslu. Ég verð þó að segja að það er alveg ljóst að höfuðborgin nýtur þess í mjög ríkum mæli að vera höfuðborg landsins og mikið af tónlistarkennslu landsmanna fer hér fram, m.a. fyrir atbeina ríkisvaldsins og fjárhagslegan stuðning sem þaðan kemur. Borgin hefur af því miklar tekjur og hún hefur sem höfuðborg líka skyldur. Það er ekki bara þannig, herra forseti, að höfuðborgin eigi að hafa tekjurnar en sveitarfélögin á landsbyggðinni eigi að hafa útgjöldin. Ég verð að segja að hún hryggir mig mjög þessi (ISG: Það er ríkið sem á að hafa þau.) dapurlega framkoma borgarstjórnar Reykjavíkur að velta kostnaði frá sér yfir á sveitarfélögin á landsbyggðinni og ef þau borga ekki, yfir í buddu foreldra þeirra barna og unglinga sem hér stunda tónlistarnám. Mér finnst það mjög hryggileg niðurstaða að borgarstjórn Reykjavíkur skuli ganga hér fram eins og tötrum klædd förukona með grátbólgna hvarma yfir fátækt sinni, borg og sveitarfélag sem hefur algjöra yfirburði í fjárhagslegri stöðu hvað efnahag varðar. Við sjáum það þegar við skoðun tölur um tekjur og eignir þessa sveitarfélags í samanburði við önnur sveitarfélög landsins. Það er engin reisn yfir þessu, herra forseti, og ég vil beina því til borgarstjórnar Reykjavíkur, bæði minni hluta og meiri hluta, að sýna meiri reisn og standa undir því að stjórna höfuðborg landsins.