Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:06:18 (770)

2003-10-17 14:06:18# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Þau viðfangsefni sem fram undan eru og þarf að leysa varðandi aðkomu ríkisins að málefnum tónlistarskólanna eru tvenns konar. Annars vegar málefni nemenda sem stunda tónlistanám á framhaldsskólastigi og hins vegar málefni er varða réttindi og skyldur tónlistarkennara.

Víkjum fyrst að rétti tónlistarnema. Reykjavíkurborg hefur að stærstum hluta, þar til í haust, kostað nám nemenda hvaðanæva af landinu sem stundað hafa framhaldsnám í tónlist. Nám þessara nemenda er nú í uppnámi. Málið snýst um að ríkið viðurkenni skyldur sínar gagnvart þessum nemendum til jafns við annað fólk sem er í námi í framhaldskólum landsins. Þegar ungmenni af landsbyggðinni sækja sér framhaldsskólanám til stærri staða hefur ríkið borið kostnaðinn. Sæki ungmenni hins vegar framhaldsskólanám í tónlist, þá eiga sveitarfélögin allt í einu að standa straum af kostnaðinum. Hér er tónlist gert miklu lægra undir höfði en öðrum námsgreinum á framhaldsskólastigi og vekur það furðu. Ungmenni velja sér þessa námsleið rétt eins og hvert annað fag og varla halda menn því fram að tónlist sé óæðra nám en annað framhaldsskólanám.

Síðara atriðið er varðandi rétt tónlistarkennara. Í lögunum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla frá árinu 1975, var kveðið á um að menntamálaráðuneytið setti reglugerð um réttindi og skyldur tónlistarkennara. Þessi reglugerð var aldrei sett og í lögunum um tónlistarskóla árið 1985 hvarf þetta ákvæði. Tónlistarkennarar, aðrir en tónmenntakennarar, hafa ekki lögskráð réttindi og tónlistarkennaranám er í uppnámi eftir þær breytingar sem orðið hafa upp á síðkastið. Það er brýn þörf fyrir löggjöf um réttindi og skyldur tónlistarkennara. Réttindin verða að vera samræmd og staðfest með lögum og mikilvægt að þau séu í samræmi við þær hugmyndir og kröfur sem uppi eru um nám til tónlistarkennaraprófs.