Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:10:55 (772)

2003-10-17 14:10:55# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Það hafa, held ég, allir ræðumenn farið hér yfir hve tónlistarlíf og tónlistarnám er mikilvægt og ég ætla ekki að endurtaka það hér og er sammála þeim sem hafa farið yfir það. En eins og allir vita var þessi málaflokkur sérstaklega færður yfir til sveitarfélaga árið 1989 með sérstöku samkomulagi. Það verður að segjast eins og er að það kom mér nokkuð á óvart af því að ég vissi af þessari utandagskrárumræðu, þó ég þakki fyrir hana, að sjá hér þingmann Vinstri grænna, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, hefja umræðuna á þessum vettvangi og enn þá fannst mér nú sérkennilegra þegar ég hlustaði á fyrrv. borgarstjóra, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, taka hér ræður á þessum vettvangi, einfaldlega vegna þess að ef við skoðum hvað gerst hefur bara í þessari viku þá gerðist nákvæmlega það að fulltrúi Vinstri grænna í menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúi sagði af sér. Og ég vil, með leyfi forseta, vitna hér í viðtöl við viðkomandi fulltrúa.

Hún segir í viðtali við sjónvarpið um ástæðuna fyrir þessu: ,,Óánægja með heildarframgöngu borgarinnar í menningarmálum og ekki síst þau verk sem hafa snúið að tónlistarskólunum undanfarið og þá vil ég meina að það sem vegi þyngst hjá mér sé túlkun Reykjavíkurborgar á kjarasamningi við tónlistarkennara.``

Á öðrum stað segir hún:

,,Ja það er aðallega tvístígandi og að sumu leyti stefnuleysi sem mér finnst einkennast þar og ég sakna þess að borgin taki af skarið um að ákveða sig hvort að hún ætlar að vera menningarborg í verki og reka þá sín flaggskip og burðarliði í menningunni eða hvort hún ætlar bara að vera menningarborg á góðum degi þegar aðrir borga.``

Ég verð að viðurkenna að ég tel málið mjög brýnt, en hefði talið eðlilegra að fulltrúar Vinstri grænna, þingmenn Vinstri grænna í Reykjavík sem og þingmenn Reykjavíkur og borgarfulltrúar eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tækju þetta upp á öðrum vettvangi og reyndu þá gera einhverja bragarbót. Og það er svolítið sérkennilegt þar sem þessir fulltrúar eru í meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur, hafa þar margt um málin að segja en taka það ekki upp þar heldur koma hér til þess að ræða þessi mál. Og það er kannski eins og þessi ágæti fulltrúi segir að þeir vilji bara hafa Reykjavík menningarborg þegar aðrir borga.