Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:13:21 (773)

2003-10-17 14:13:21# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það má svo sem segja það um ýmsar ræður að þær hefði kannski átt að flytja á öðrum vettvangi en einmitt hér í þessum ræðustól. En ég vil þó þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka þetta mál upp hér og ræða það á hinu háa Alþingi því það breytir ekki hinu, þótt menn deili um hver sé ábyrgð hvers o.s.frv., að það eru nemendurnir sem verða fyrir barðinu á þessu. Og það er því okkar stjórnmálamannanna að reyna að lenda þessu máli með einhverjum skynsamlegum hætti og það eru deilur uppi um það hver eigi að greiða fyrir tónlistarnám fólks á framhaldsskólastigi.

Við höfum núna nokkrum sinnum á hinu háa Alþingi tekið umræður um ýmislegt sem brennur á fólkinu í landinu og ég sakna þess jafnan að mér finnst ætíð skorta á einhvers konar framtíðarsýn hjá þeim ráðherrum sem hér taka til máls. Ég hlýddi mjög gaumgæfilega á ræðu hæstv. menntmrh. þar sem ég reyndi að átta mig á því hvert hann hygðist stefna, hvaða framtíðarsýn hann hefði í málinu og hvernig hann hygðist taka á þeim vanda sem uppi er og allir viðurkenna en það var í reynd ekkert sem kom fram, ekki nokkur skapaður hlutur. Það kom þó það eitt fram að málið hefði verið í nefnd, mundi verða eitthvað áfram í nefnd og væntingar væru um að nefndin skilaði af sér um áramótin. Það kom ekkert fram að hæstv. ráðherra hefði sjálfstæðan vilja í málinu. Það kom ekkert fram um það að hann hefði einhverja sýn í málinu. Það kom ekkert fram sem sagði okkur að hann ætti eitthvert erindi eða hefði eitthvert innlegg í það að leysa þessa deilu.

Og það er afar erfitt, virðulegi forseti, að eiga hér viðræður við hæstv. ráðherra, pólitískan ráðherra sem sjaldan eða aldrei virðist hafa nokkra pólitíska sýn, nokkra sýn á það hvernig leysa eigi úr þessu. Þetta mál hefur lengi verið til umræðu. Það er engin niðurstaða fengin en ég segi það aðeins að ég hvet menn til þess að reyna að finna lausn á þessu og afgreiða á þann hátt að ríkisvaldið sjái um tónlistarmál á framhaldsskólastigi.