Tónlistarnám á framhaldsskólastigi

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:22:15 (777)

2003-10-17 14:22:15# 130. lþ. 14.95 fundur 95#B tónlistarnám á framhaldsskólastigi# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem komu við fyrirspurn minni þó að hann eigi eftir að svara lokaspurningunni. Ég verð jafnframt að segja að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með innihald þeirra. Hæstv. ráðherra verður að viðurkenna að skilin á milli þessara skólastiga hafa orðið skýrari eftir því sem árin hafa liðið. Þegar kostnaðarskiptingarsamkomulagið var gert árið 1989 var skammt í að grunnskólarnir færu yfir til sveitarfélaganna. Eftir að grunnskólarnir fóru yfir til sveitarfélaganna hafa menn í auknum mæli gert sér grein fyrir því að framhaldsnám í tónlist er orðið afmarkaðra fyrirbæri en það var 1989 og fram til 1995. Við skulum átta okkur á því að þetta hefur verið að kristallast síðasta áratug.

Við hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vil ég segja að Reykjavíkurborg er sannarlega ekki eina sveitarfélagið sem hefur þann hátt á sem nú hefur verið tekinn upp. Akureyri hefur t.d. alla tíð innheimt gjöld vegna þeirra nemenda sem sækja tónlistarnám á Akureyri en eru utan sveitarfélagsins. Þetta er ekki neitt einsdæmi hjá Reykjavíkurborg. Hins vegar eru aðgerðir Reykjavíkurborgar til þess gerðar að beita þrýstingi á ríkisvaldið sem verður að fara að gera upp hug sinn í þessu máli og láta ekki eins og framhaldsnám í tónlist sé ekki til, að þetta menntaskólastig í tónlistarnámi sé ekki til.

Mér virðist ríkisvaldið víkja sér undan ábyrgð í þessum efnum og ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með það. Ég varð einnig fyrir vonbrigðum með þau svör hæstv. ráðherra er hann talaði um einhvers konar ígildi kennaranáms í Listaháskóla Íslands. Mér skildist það á máli hans áðan að það ætti að leggja áherslu á að nemendur yrðu búnir undir kennarastörf þó ekki væri um eiginlegt kennaranám að ræða. Ég spyr: Er hæstv. ráðherra að boða einhverja gengisfellingu eða gjaldfellingu kennaranáms í listum? Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum ef svo er.

Ég vil að lokum (Forseti hringir.) segja, herra forseti, að meðan staðan er eins og hún er þá eru það nemendur og foreldrar þeirra sem gjalda þess.