Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:35:13 (780)

2003-10-17 14:35:13# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Við ræðum hér till. til þál. um öflun grunngagna um náttúru landsins og gerð náttúrufarskorta og ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við hana. Hér er afar gott mál á ferðinni og brýnt að mínu mati. Það kemur að sjálfsögðu til vegna þess að stjórnvöld hafa ekki sett þennan málaflokk í forgang sem er auðvitað val stjórnvalda þannig að hér hafa hlutirnir farið fremur hægt af stað. Satt að segja mega kannski samningarnir sem gerðir voru í Ríó 1992 eiga það að þeir hristu örlítið upp í íslenskum stjórnvöldum þó svo að þau hafi brugðist afar seint við.

Á síðustu árum hefur, eins og kom fram í máli hæstv. umhvrh. fyrr í þessari umræðu, þó verið reynt að gera ýmislegt, á síðustu þremur árum vil ég meina. Það hefur að hluta til verið gert í tengslum við vinnu við rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og að hluta til í gegnum fjárveitingar til Landmælinga. Allt er það gott sem vel er gert en hér er auðvitað um verkefni að ræða af þeirri stærðargráðu að mér þykir eðlilegt að það sé forgangsverkefni hjá umhverfisyfirvöldum á Íslandi.

Við búum í afar stóru landi sem er ríkt af náttúrugæðum. Náttúran okkar er einstök í veröldinni, búsvæðagerðirnar einstakar og það starf sem er hafið í skráningu búsvæðagerðanna á Náttúrufræðistofnun Íslands er algjörlega til fyrirmyndar. En þar er ekki bara um hefðbundna kortagerð að ræða, frú forseti, heldur hefur skráning búsvæða og búsvæðagerða vítt og breitt um hálendi Íslands staðið þar yfir og gerð korta á grunni þeirra greininga. Ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að kíkja aðeins yfir öxlina á þeim vísindamönnum sem hafa unnið búsvæðagerðagreiningarnar og kennslustundirnar sem maður getur farið í hjá þeim vísindamönnum eru afar fróðlegar.

Það er að hluta til nýtt hér í landinu að fara í svona greiningu á náttúrufarinu og gera kort af búsvæðagerðum okkar. Ég held að við þurfum að opna augu okkar fyrir því að hér getum við, eins og í svo mörgum öðrum málum, tekið ákveðna forustu. Ég held að við höfum á að skipa frábærum vísindamönnum sem hafa miklu meiri getu en þeir geta látið í ljósi vegna þess að fjármunirnir til málaflokksins hafa verið af skornum skammti.

Ég hef átt sæti í umhvn. Alþingis sem fékk þetta mál til sín í fyrra en fjallaði ekki um það þá. Þetta er dæmi um mál sem kemur frá stjórnarandstöðuþingmönnum og þar af leiðandi er það lagt til hliðar og fær ekki afgreiðslu. Nú vil ég bara segja það hér í þessari umræðu að það er afar brýnt að þingið fái tækifæri til að taka afstöðu til þessa máls þegar þar að kemur. Það liggja fyrir jákvæðar umsagnir um málið frá fagaðilum, sem skipta auðvitað verulegu máli, og stjórnvöld verða að fara að láta af þeim leiða sið að salta ævinlega frumvörp eða þáltill. sem koma frá stjórnarandstöðunni, það má segja nánast sama hversu góð þau eru.

Nú lýsti hæstv. umhvrh. því hér í morgun að hún væri í sjálfu sér samþykk efni málsins. Hún lýsti því yfir að verið væri að vinna að málinu, jú, það er rétt, en það er ekki verið að vinna að því á þeim hraða sem telja mætti eðlilegan og ekki heldur nægilega vel til þess að segja megi að við stöndum okkur vel varðandi þá alþjóðlegu samninga sem við höfum skuldbundið okkur til. Vil ég þá sérstaklega nefna samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika því að framkvæmdaáætlun um þann samning hefur ekki enn þá litið dagsins ljós.

Það er auðvitað gífurlega brýnt að stjórnvöld taki á í þessu máli, reki af sér slyðruorðið og bretti upp ermar því að hérna held ég að við getum tekið ákveðna forustu í heiminum og ég held að við getum kennt vísindamönnum vítt og breitt um veröldina hvernig við förum í þessa vinnu. Eins og ég segi, vísindamennirnir okkar hafa meiri getu en þeim er heimilt að nota núna vegna fjárskorts. Ég vil bara að það verði hætt að láta framkvæmdaraðila ævinlega ráða því hvað er rannsakað og hvað er skoðað og að farið verði að gera það á forsendum náttúruverndarinnar og þeirra vísinda sem þar liggja að baki.