Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:44:18 (782)

2003-10-17 14:44:18# 130. lþ. 14.9 fundur 27. mál: #A grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort# þál., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Frú forseti. Ég vil fyrst og síðast koma hér í pontu í annað sinn í þessari umræðu til að þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni í dag, reyndar hæstv. ráðherra líka sem hefur nú vikið sér úr húsi, og þó sérstaklega þeim hv. þm. sem hafa tekið vel í tillöguna og lýst yfir eindregnum stuðningi við hana.

Ég held satt best að segja, frú forseti, að efni tillögunnar sé þessi eðlis að flestum þyki skynsamlegt að fara í þessa vinnu. Það kann að vera deilt um það hversu hratt á að gera það, vegna kostnaðar, og hver forgangsverkefnin eigi að vera. En ég vil taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem sagði áðan að það væri skoðun hennar að þetta hlyti að vera forgangsverkefni númer eitt, tvö og þrjú hjá umhverfisyfirvöldum. Það er kannski ekki síst það sem ég er að kalla eftir með þessari umræðu og held að með því að samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir væri verið að lýsa því yfir að þetta væri það mark sem stefnt væri að, og þá tækju stjórnvöld beinlínis þá stefnu að þetta væri vinna sem ætti að leggja mikla áherslu á. Við getum svo deilt um það á hversu mörgum árum eigi að gera það.

En það er einfaldlega, frú forseti, erfitt að fá umræðu um náttúruvernd, landnýtingu eða virkjanakosti í skynsamlegan farveg á meðan þessi gögn liggja ekki fyrir, á meðan skráninguna vantar og grunnrannsóknir eru kannski að stórum hluta til í höndum framkvæmdaraðila.

Ég vil líka endurtaka það sem ég sagði í umræðunni fyrr í dag að á nýafstöðnu umhverfisþingi var það álit a.m.k. tveggja hópa sem þar störfuðu að þetta ætti að vera forgangsverkefni. Það kom töluvert fram í umræðum á umhverfisþingi. Því segi ég enn og aftur, frú forseti, að ég vonast til þess að þessi tillaga fái raunverulega og góða umfjöllun í hv. umhvn. og í þinginu aftur og að hún verði afgreidd. Umsagnaraðilar hafa tekið mjög vel í hana þannig að þeir sem starfa á þessum vettvangi virðast vera hlynntir efni tillögunnar.

Ég held líka að það sé mikilvægt að við horfum til þess að við höfum verið í vandræðum með ferlið um mat á umhverfisáhrifum. Um það held ég að við getum öll verið sammála, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, það hafa verið óvenjumiklar deilur hér á landi um úrskurði varðandi mat á umhverfisáhrifum og ég er sannfærð um að það stafar af því að það vantar ákveðin grunngögn. Við getum borið þetta saman við reynsluna frá öðrum löndum þar sem framkvæmdaraðilar geta gengið að ákveðnum grunngögnum vísum, það er til kort af viðkomandi svæði og þá er til ákveðið, ef við getum orðað það svo, verðmætamat. Það er búið að leggja ákveðið mat á verðmæti þessa tiltekna lands út frá einhverjum alþjóðlegum, viðurkenndum stöðlum.

Hvernig í ósköpunum eigum við öðruvísi að verðmeta land, við getum orðað það þannig, en að styðjast við einhverja staðla til þess? Smekkur okkar er misjafn. Við hljótum að gera þá kröfu að þarna sé unnið faglega. Sú aðferðafræði sem hér er lögð til er ekki fundin upp af mér, hún hefur verið þróuð hjá öðrum ríkjum. Hún er byggð á ákveðinni grunnhugsun sem birtist í ákveðnum alþjóðlegum sáttmálum sem við erum bundin af. Hvers vegna ættum við ekki að tileinka okkur þessa aðferðafræði?

Hæstv. umhvrh. sagði í morgun að við værum lítið land og það væri mjög dýrt fyrir okkur að fara út í þessa vinnu. Vissulega kostar hún peninga. Ég held samt að það sé líka mikilvægt fyrir hæstv. umhvrh. og stjórnvöld að hafa í huga að hér hafa farið fram ansi miklar framkvæmdir uppi á hálendi Íslands, það hefur verið mikið farið í virkjanir og þess vegna er mjög mikilvægt að þessi vinna sé unnin hratt og vel. Ég er líka sannfærð um að mikið fé mundi sparast ef þessi gögn væru til staðar. Miklir fjármunir hafa farið af hálfu stjórnvalda í öll málaferlin og allar deilurnar sem hafa staðið um úrskurðina um mat á umhverfisáhrifum og kæruferlin. Allt kostar þetta peninga og þar erum við Íslendingar miklir meistarar í samanburði við aðrar þjóðir. Af einhverju stafar það, frú forseti.

Ég held líka að þessi skráning sé mikilvæg til þess að fá umræðu um náttúruvernd upp úr tilfinningasemi. Þó að hún sé alltaf að einhverju leyti háð tilfinningum og mati hvers og eins held ég að það sé mikilvægt að reyna að fá hana niður á einhvern mælanlegri mælikvarða. Eins og þessi mál horfa við okkur í dag skortir skýra efnislega mælikvarða svo að unnt sé að meta og kortleggja náttúruna.

Ég vek líka athygli á því sem kemur fram í tillögunni að það er lagt til að með þessu séu gerðar ákveðnar lágmarkskröfur til gæða gagnanna. Eins og þetta er í dag eru framkvæmdaraðilarnir sjálfir í raun og veru að meta það hversu góð gögnin séu sem þeir leggja fram sjálfir. Við getum líka lagt fram rök fyrir þeirri skoðun að í raun og veru sé umhverfismatið ekki jafngott og það gæti verið ella ef gögnin væru unnin af hlutlausum aðilum.

Frú forseti. Ég tel að með því að samþykkja þessa tillögu sé unnt að standa skynsamlegar að landnýtingu en nú hefur verið gert, og nýtingu náttúruauðlinda yfirleitt. Ég tel að þarna höfum við fordæmi hjá öðrum þjóðum fyrir aðferðafræði sem virkar og að við eigum að taka hana upp.

Enn og aftur, frú forseti, vil ég þakka fyrir þessa umræðu og sérstaklega þeim hv. þm. sem lýstu yfir eindregnum stuðningi við tillöguna.