Áfengislög

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 14:51:19 (783)

2003-10-17 14:51:19# 130. lþ. 14.11 fundur 29. mál: #A áfengislög# (framleiðsla innlendra léttvína) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998. Flm. að þessu frv. ásamt mér eru hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir.

Frumvarpið er mjög einfalt í sniðum. Það er aðeins ein grein og svo lagagildingargreinin. 1. grein hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. og 2. mgr. 6. gr. skal heimilt að framleiða án leyfis vín úr innlendum berjum, ávöxtum eða jurtum til eigin neyslu sem í eru að rúmmáli minna en 15% af hreinum vínanda.``

Síðan er lagagildingargreinin um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Þessu fylgir örstutt greinargerð, svohljóðandi:

Tilgangur frumvarps þessa er að gera þeim sem vilja og getu hafa til kleift að framleiða létt vín úr innlendum ávöxtum og jurtum og að þeir megi bera það fram án þess að slíkur heimilisiðnaður teljist lögbrot. Flutningsmenn telja að rétt sé að lagfæra áfengislögin þannig að framleiðsla léttvíns með tilgreindum hráefnum verði leyfð. Með því aukna frelsi sem hér er lagt til gæti innan fárra ára orðið til þekking við gerð matarvína sem kynni síðar að verða séríslensk framleiðslu- og verslunarvara, t.d. vín úr hreinni náttúruafurð eins og íslenskum berjum.

Frumvarp sama efnis hefur áður verið lagt hér fram, á 128. löggjafarþingi, en var þá ekki afgreitt úr nefnd og er því lagt fram að nýju.

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns er þetta frv. nokkuð einfalt í sniðum. Það kveður á um það að heimilisiðnaður, eins og við viljum kalla það --- ég mundi jafnvel vilja kalla það listgrein hjá mörgu fólki sem er mjög hæft í því að framleiða dýrindis matarvín --- verði löglegur, það verði ekki talið lögbrot lengur að framleiða vín sem er upp að 15% styrkleika af hreinum vínanda.

Eins og málum er háttað hér á landi í dag er hægt að kaupa öll tækin til að framleiða vín og það gerir fólk í stórum stíl, það kaupir sér útbúnaðinn og framleiðir sín eigin vín. Mörg þeirra vína eru prýðilega góð og það sem meira er, fólk hefur á undanförnum árum og áratugum verið að þróa með sér þekkingu á þessu sviði, m.a. þá að nýta íslenskar jurtir og ávexti til þess að framleiða úr dýrindis matarvín.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þessi vín eru höfð um hönd á heimilum viðkomandi manna og eru jafnvel einstöku sinnum gefin í tækifærisgjafir. Ég hygg að þeim sem fá að njóta og taka við finnist það hin besta gjöf að fá framleiðslu fólks sem kann til verka og er jafnvel búið að framleiða matarvín mjög lengi og af hinni mestu snilld Mörgum finnst ugglaust gaman að fá slíka persónulega gjöf.

En einmitt þessi athöfn, að gefa framleiðslu sína öðrum, bera hana á borð fyrir aðra eða jafnvel að neyta hennar sjálft, er ólögleg vegna þess að styrkleiki vínanna er yfir þeim mörkum sem fólki er heimilt að framleiða. Þetta vitum við auðvitað öll og það hefur gætt mikils tvískinnungs í þjóðfélaginu um afstöðu til þess fólks sem framleiðir sitt eigið matarvín.

Þetta litla frv. sem við höfum stundum kallað í gamni ,,litla bruggmálið`` hefur komið áður fyrir augu hv. alþm. án þess að það hafi náð að fara í gegnum hið háa Alþingi. Ég vænti þess nú að menn láti af tvískinnungi sínum, hv. alþm. sem aðrir, og viðurkenni að hér á landi framleiðir fólk sitt eigið vín, enda er löglegt að kaupa tæki til þess og annan útbúnað í verslunum. Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegi forseti, að margir hér á landi, mjög margir, kunna afar vel til verka við að framleiða sín eigin matarvín. Sú sérstaka framleiðsla sem betrumbætt er með íslenskum ávöxtum eða jurtum eða þar sem framleiðslan er eingöngu úr íslenskum ávöxtum og jurtum er afar sérstök að mörgu leyti. Ég get alveg fullyrt það fyrir mína parta að betri vín með villibráð --- ég vil kalla íslenskt lambakjöt villibráð --- en heimatilbúið vín úr krækiberjum eða aðalbláberjum með slíkum réttum, ég tala nú ekki um með fuglum, hreindýrakjöti o.s.frv., fyrirfinnist varla. Mér finnst a.m.k. að þau vín sem ég hef smakkað hjá fólki smellpassi við slíkar náttúruafurðir.

Þetta litla frv. sem hér er lagt fram gerir það að verkum fyrst og fremst, ef samþykkt yrði, að menn verða ekki lögbrjótar við að framleiða það sem þeir gera hvort eð er í dag. Þeim tvískinnungi í íslensku þjóðfélagi yrði hætt, að halda því fram að fólk kaupi sér víngerðartæki og framleiði ekki vín sem er yfir þeim styrkleikamörkum sem fólki er heimilt að framleiða í dag. Ég legg til að við hættum þeim tvískinnungshætti að halda því fram að hér geti menn keypt allar græjurnar en megi bara ekki nota þær. Þetta er vægast sagt furðuleg afstaða og ég eiginlega skil ekki í jafnhreinskilinni þjóð og Íslendingum sem játa á sig hvert lögbrotið á fætur öðru og ráðherrarnir hlæja að í mesta lagi. Það gerðist á Landssambandsþingi smábátaeigenda í gær, þar sögðu menn: Ja, við hendum nú þessum tegundum hreinlega í sjóinn. Og ráðherra bara brosti. Menn gera ekkert með það. En lögin eiga samt að vera í gildi þó að þau stangist á við alla framkvæmd.

Sama er um þetta mál nema það að fólkið sem framleiðir þessi vín er í raun og veru að nýta sér íslenska náttúru og það er ekki að taka afurðirnar frá neinum. Það er yfirleitt að nýta þær í eigin landi því að margir bændur og bændakonur kunna vel til verka í þessum efnum og það er fullur sómi að þeirri framleiðslu.

Ég hygg að sú opnun sem hér er lögð til, að bruggun upp að 15% styrkleika af hreinum vínanda verði lögleg og að menn megi bera hana á borð fyrir gesti sína án þess að það sé lögbrot, sé hæfileg. Þetta opnar hins vegar alls ekki á að menn geti farið að selja vín. Það þarf miklu meiri breytingar og miklu meiri uppfyllingar á lagaskilyrðum til þess að fólk geti framleitt vín til sölu. Þá eru menn auðvitað komnir undir heilbrigðisreglugerðir og fjöldamörg önnur ákvæði svo sem þjófaheldar víngeymslur o.s.frv. Menn mega ekki misskilja það að það frv. sem hér er verið að ræða sé um það að allir gætu farið að framleiða heimagerð matarvín og allir gætu tekið upp sölu á þeim. Það er ekki þannig. Það gæti enginn farið að selja vín samkvæmt þessari lagaheimild sem hér væri opnað á. Hér væri eingöngu opnað á það að fólki væri heimilt að framleiða þessi vín og bera þau á borð fyrir gesti sína án þess að það teldist lögbrot.

Ég álít, virðulegi forseti, að sú vínmenning sem hefur þróast hér á landi á undanförnum árum, að fólk nýti og noti meira af léttum vínum en var kannski hér áður og fyrr, sé af hinu góða. Ég tel að ef við getum opnað á það og hvatt til þess að menn geti framleitt afurðir úr íslenskum jurtum og ávöxtum séum við að auka menningu okkar og opna á ný svið sem núna eru lögbrot, virðulegi forseti. En fólk framleiðir auðvitað sín eigin vín og margir eru snillingar í því.

Ég lít svo á að þetta sé opnun á það að hér megi koma fram áhugi fólks, vilji og geta til þess að framleiða góða matardrykki, sem matarvín eru vissulega, og það þurfi ekki að vera með sérstakar bindindispredikanir í sambandi við þetta mál. Vilji okkar er ekki sá að opna fyrir framleiðslu á heimabruggi til þess að fólk fari að sjóða af því spíra, við erum ekki að því. Hér er eingöngu verið að opna á það að fólk megi gera sitt heimagerða vín á löglegan hátt en sé ekki, eins og það er í dag, lögbrjótar við slík verk.

Ég held að ég geti ekki haft mikið lengra mál um þetta, þetta er lítið mál. Þetta er nefnilega ,,litla bruggmálið`` sem mér finnst að hv. Alþingi eigi að klára og sjá sóma sinn í að afgreiða til að við höldum ekki áfram hér, hv. alþingismenn, að segja fólki að það megi kaupa tækin, það fái sérstakar leiðbeiningar um hvernig eigi að nota þau, en síðan sé það lögbrot að nota þau. Þetta er tvískinnungur, virðulegi forseti, og á ekki skylt við þróun og hugsun í nútímaþjóðfélagi. Ég held einnig, eins og við höfum reyndar vikið að hér, að á skömmum tíma, nokkrum árum, geti komið upp sú þekking við framleiðslu á íslenskum matarvínum að þetta geti orðið undirstaða síðar að framleiðslu sem yrði söluvara en þá þarf bara málið að fara í annan farveg heldur en opnað er á í þessu frv. Þetta frv. gerir ekkert annað en að gera það löglegt sem menn aðhafast í dag og allir vita og enginn skiptir sér af en er samt sem áður lögbrot, virðulegur forseti.