Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:20:29 (787)

2003-10-17 15:20:29# 130. lþ. 14.12 fundur 30. mál: #A sveitarstjórnarlög# (lágmarksstærð sveitarfélags) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði að hann væri á móti lögþvingun. Nú þarf ekkert um það að ræða að það er lögþvingun í gangi. Ef sveitarfélög fara niður fyrir 50 manns skulu þau sameinast öðrum. Þegar það hefur gerst hefur þeirri lögþvingun verið beitt, þó nokkuð oft. Þannig að það er ekki um það að ræða að það sé ekki fyrir hendi þetta mark í lögunum, það er þar.

Þá er spurningin, hvaða mark á að hafa þarna? Hv. þm. nefndi: Á það að vera 1.000, á það að vera 600, á það að vera eitthvað annað? Ég segi: Á það að vera 50? Þeir sem segjast vera á móti því sem þeir kalla lögþvingun, halda því í raun og veru fram að það eigi að vera 50 og að þeir sem eru í sveitarfélögunum í dag eigi að hafa um það algert neitunarvald að á því verði breyting.

Ég er á þeirri skoðun að löggjafinn eigi að bera ábyrgð á þessu og að það sé skynsamlegt að taka þetta til endurskoðunar núna. Hvort menn vilja svo lögþvinga með miklu stærri hætti en um hefur verið rætt fram að þessu, t.d. á höfuðborgarsvæðinu eða þéttbýlissvæðum, þá eru menn að ræða um málið á allt öðrum forsendum en við höfum gert fram að þessu, því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru fullkomlega fær um að taka við þeim verkefnum sem talað er um að vísa frá ríkinu til sveitarfélaganna og að þjóna íbúunum samkvæmt þeim kröfum sem hafa verið gerðar.

En landfræðilegar aðstæður skipta auðvitað máli og ég tel ástæðu til þess að ítreka það að það á auðvitað að geta ráðið úrslitum (Forseti hringir.) ef það er ekki skynsamlegt af landfræðilegum ástæðum að sameina sveitarfélög.