Vernd og sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 15:44:03 (792)

2003-10-17 15:44:03# 130. lþ. 14.13 fundur 31. mál: #A vernd og sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni afar brýnt og þarft mál og ég þakka flutningsmönnum fyrir það að hafa lagt fram þessa till. til þál. í þinginu.

Málið er mér svolítið skylt að vissu leyti því að á sínum tíma bjó ég í Noregi og starfaði þar m.a. sem fréttamaður. Ég man að ég sýndi á Íslandi, sennilega árið 1998, komin fimm ár síðan, mjög sláandi myndir sem norska hafrannsóknastofnunin hafði tekið á hafsbotni við Noreg. Forsaga þess máls var sú að sjómenn höfðu haft samband við norska vísindamenn við norsku hafrannsóknastofnunin í Björgvin og bent þessum vísindamönnum á að við strendur Noregs væri að finna kóralrif sem hefðu orðið fyrir skemmdum af völdum togveiðarfæra. Norðmenn brugðust mjög drengilega við þessum ábendingum sinna sjómanna og sent var út rannsóknaskip búið myndavélum og þær sendar niður og hreinlega teknar myndir af hafsbotninum. Þær myndir voru mjög sláandi. Annars vegar mátti sjá hreint ótrúlega náttúrufegurð, ótrúlegan fjölbreytileika lífs, þar iðaði allt af lífi, stórkostlegar myndir. Ég er þess fullviss að allir þeir sem hafa séð þessar myndir munu aldrei gleyma þeim. Mikið af fiski í kringum þessi kóralrif og afskaplega mikið líf.

Hins vegar mátti sjá myndir af svæðum þar sem veiðarfæri höfðu farið yfir og þar var gersamlega búið að splundra öllum kóral. Hafsbotninn var eins og eyðimörk. Kórallinn var malaður mélinu smærra, allt líf var horfið nema einstakir fiskar sáust á stangli.

Slíkt slys hafði sem sagt orðið við Noregsstrendur. Í framhaldi af því tóku Norðmenn strax þá ákvörðun að friða þessi svæði og allar götur síðan hefur norska hafrannsóknastofnunin verið að kanna strendur Noregs markvisst og fleiri svæði hafa fundist, stórkostleg kóralsvæði sem umsvifalaust hafa verið friðuð fyrir togveiðarfærum. Þetta er að mínu mati, frú forseti, gott dæmi um mjög ábyrga nýtingarstefnu. Það er enginn að tala um að banna eigi fiskveiðar á þessum svæðum, hins vegar er verið að tala um að banna notkun dreginna veiðarfæra sem við vitum að skemma kóralinn. Það er vel hægt að stunda veiðar á svona svæðum með kyrrstæðum veiðarfærum, með línum eða handfærum, jafnvel netum, en ekki að nota dregin veiðarfæri.

Ég man eftir að þegar þessar myndir voru sýndar á Íslandi brá mörgum í brún og það var mjög skiljanlegt. Menn höfðu hreinlega ekki gert sér grein fyrir því að slíka fegurð, jafnstórkostleg fyrirbæri væri að finna á hafsbotni. Ég tek fram, frú forseti, að ég er ekki að álasa sjómönnum á neinn hátt þó að þeir hafi skemmt kóralrif, menn hafa hreinlega ekki vitað hvað þeir voru að gera. Norðmenn vissu ekki hvað þeir voru að gera og Íslendingar hafa heldur ekki vitað hvað þeir voru að gera. Ég hef sjálfur verið á sjó og ég hef lent í því þegar kórall hefur komið upp með trolli. Maður gerði sér ekki neina grein fyrir því að þarna væri sennilega búið að toga yfir stórkostleg svæði og skemma svæði sem kannski hafði tekið hundruð eða þúsundir ára að byggja upp með því að beita slíku veiðarfæri vegna þess að maður sér ekki hvað er að gerast á botninum þegar veiðarfærin eru dregin eftir honum. En nú vitum við miklu betur.

Eftir að myndirnar voru sýndar fyrir fimm árum kom einmitt fram þáltill. frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um að gera yrði eitthvað í þessum málum. Það varð því miður ekkert úr því. Eftir sýningu myndanna árið 1998 fylgdi sjónvarpið þessu aðeins eftir, tekin voru viðtöl við hagsmunaaðila og vísindamenn. Allir lýstu því yfir að þeim þætti þetta alvarlegt mál og það væri sjálfsagt að fara í þetta og kanna þetta. En því miður, frú forseti, verð ég að lýsa því yfir að það hefur nánast ekkert verið gert. Það hefur ekkert verið gert í þessu máli.

Hafrannsóknastofnun hefur sennilega, eins og venjulega, hvorki haft mannskap né peninga til að sinna þessu sem ég vil flokka undir alvöru hafrannsóknir. Að vísu hefur verið leitað eftir gögnum, haft samband við sjómenn og leitað eftir vitneskju þeirra um hvar kóralinn væri að finna en þar fyrir utan hefur ekkert verið gert. Þetta er afskaplega sorglegt og ber vott um mikið ábyrgðarleysi. Ég sakna þess, frú forseti, að hér í salnum skuli hvorki vera hæstv. umhvrh. né hæstv. sjútvrh., þeim er báðum málið mjög skylt, og leitt að þau skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera hér við þessar umræður og taka þátt í þeim.

Að sjálfsögðu ætti fyrir löngu að vera búið að senda hafrannsóknaskip á þau svæði sem sýnd eru í ágætu korti sem fylgir þessari þáltill., fskj. II. Við eigum skip sem getur sinnt þessum rannsóknum, rannsóknaskipið Árna Friðriksson, sem menn hafa löngum gortað sig af að væri afskaplega fullkomið. Það hefur yfir að ráða búnaði sem hægt væri að nota við þetta. Ég veit að um borð í því skipi er t.d. svokallaður fjölgeislamælir til að kanna hafsbotninn. Honum hefur ekki verið beitt í þessar þörfu rannsóknir. Það er ekkert mál að koma fyrir myndavélum um borð í svona skipum, senda þær niður og taka neðansjávarmyndir.

Ég verð að lýsa því yfir, frú forseti, að mér finnst alveg með ólíkindum það mikla ábyrgðarleysi sem ríkisstjórnin hefur sýnt í þessu máli, þetta gríðarlega ábyrgðarleysi. Því að þessi kóralsvæði eru ómetanleg, ekki bara með tilliti til þess að þarna er svo fjölbreytt líf, margar jafnvel fágætar tegundir sem hverfa um leið og kórallinn er molaður niður, malaður mélinu smærra, heldur er margt sem bendir til að þessi svæði séu uppvaxtarsvæði fyrir mikilvæga nytjastofna, t.d. karfa. Við vitum, frú forseti, að karfinn á Íslandsmiðum fyrir sunnan og vestan land á mjög í vök að verjast og hann hefur lengi átt erfitt ef marka má niðurstöður fiskifræðinga. Nýliðun hefur verið léleg, frú forseti.

Sjómenn hafa sagt okkur að þeir hafi verið að toga í gegnum þessi svæði, þeir hafa skemmt þau og þeir vita hvar þau eru. Þeir gætu auðveldlega bent okkur á svæðin. Ef leitað væri eftir upplýsingum hjá þeim í trúnaði um hvar þau svæði eru þá er ég þess fullviss að íslenskir sjómenn mundu vera allir af vilja gerðir til að upplýsa fiskifræðinga og sjávarlíffræðinga um hvar þessi svæði er að finna.

Hér er það fyrst og fremst viljann sem skortir, og það er tregara en tárum taki að þau stjórnvöld sem eru við völd á Íslandi í dag og gorta sig af því að reka hér ábyrga fiskveiðistefnu haldi úti heimasíðum á erlendum tungumálum undir flagginu ,,Responsible Fisheries``, ábyrgar fiskveiðar, að þau skuli ekki gera neitt í þessu máli. Þetta er hrein þjóðarskömm.

Ég vona, frú forseti, að bæði hæstv. umhvrh. og hæstv. sjútvrh. heyri þessar umræður og þau taki sér nú tak og geri eitthvað í þessum málum því að ljóst er að þessi svæði verða ekki bætt og það er ófyrirgefanlegt að við skulum ekki gera neitt í þessu. Og að sjálfsögðu ættu hagsmunaaðilar, bæði sjómannasamtökin og samtök útgerðarmanna, strax að sjá sóma sinn í því að þrýsta á stjórnvöld að umrædd svæði verði fundin, þau verði mynduð og síðan friðuð fyrir togveiðarfærum.