Samgönguáætlun

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 16:35:13 (797)

2003-10-17 16:35:13# 130. lþ. 14.19 fundur 39. mál: #A samgönguáætlun# (skipan samgönguráðs, grunntillaga) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur gert grein fyrir þessu máli en ég er einn af flutningsmönnum þess. Ég tel ýmislegt mæla sterklega með því að gerð verði tilraun til að breyta því ferli sem hér ríkir og hefur verið á undanförnum árum hvað varðar ákvarðanir í samgöngumálum. Það er auðvitað ekki vansalaust hvernig þessar ákvarðanir virðast oft teknar í hálfgerðri þoku. Fagleg vinnubrögð og gagnsæ eru ekki til staðar hvað þessa hluti varðar.

Við höfum á undanförnum árum, að minnsta kosti allan síðasta áratuginn og rúmlega það, séð hvernig menn setja fram samgönguáætlanir til fjögurra ára og upp á síðkastið til lengri tíma. Einu eða tveimur árum seinna stekkur ríkisstjórnin fram með átak í vegamálum. Ég hef ekki tölu á hve mörg þau eru orðin en ég gæti ímyndað mér að þau væru líklega svona fimm eða sex á þessu tímabili, á 11 eða 12 ára tímabili. Þessi átaksverkefni í vegamálum eru ævinlega sama marki brennd. Þá ákveður ríkisstjórnin að setja tiltekið fjármagn í átak í vegamálum og um leið ákveður ríkisstjórnin að tiltekin verkefni komi til framkvæmda. Það eru ekki endilega verkefni sem hafa verið á áætlun undanfarin ár eða miklu aftar en önnur verkefni. Þannig er því starfi sem unnið hefur verið við áætlanagerðina allt í einu kastað til hliðar vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið það að auglýsa sig fyrir næstu kosningar eða af einhverjum öðrum ástæðum.

Að sama skapi eiga þingmenn og aðrir ákaflega erfitt með að setja fram gagnrýni á þessar ákvarðanir á faglegum forsendum. Það er ekki til skráning eða mat á þeim einstöku verkefnum sem koma til greina. Svo að maður taki sem dæmi eitt af síðustu deilumálum hvað svona ákvarðanatöku varðar, jarðgöngin til Siglufjarðar, þá telja sumir að nýta ætti til annars þau þrjú ár sem eru fram að því þær framkvæmdir eiga að hefjast samkvæmt síðustu loforðum ríkisstjórnarinnar. Þeir geta hins vegar ekki borið þær framkvæmdir saman við neina aðra möguleika.

Nú liggur t.d. fyrir, svo annað dæmi sé tekið, að stytting á leiðunum á þjóðvegi 1 er oft mjög hagkvæm. Fyrir liggja útreikningar á möguleikum sem eru fyrir hendi til að stytta þjóðveg 1 og eru margir þeirra mjög hagkvæmir. Aðrir möguleikar til að stytta leiðir eru ekki til staðar. Af því að ég nefndi áðan jarðgöngin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar þá hefur t.d. komið fram að hugmynd um að stytta þjóðveg 1 með því að halda þjóðvegi 1 áfram við þéttbýlisstaðina á leiðinni um Norðurland vestra. Þá er ég að tala um að láta þjóðveginn áfram liggja í gegnum Blönduós, færa hann nær Skagaströnd og fara yfir Þverárfjallsveginn til Sauðárkróks og þaðan yfir Skagafjörðinn, í gegnum Tröllaskagann inn í Eyjafjörð. Þessi leið hefur ekki verið skoðuð þannig að menn geti borið hana saman við þá styttingu sem Vegagerðin hefur miðað við, þ.e. að styrkja og gera betri vegi á svipuðum slóðum og verið hefur og stytta hann. Framtíðarumferðin um þjóðveg 1 liggur samkvæmt áformum Vegagerðarinnar öll fjarri þessum byggðarlögum sem ég taldi upp áðan. Það er auðvitað slæmt að menn geti ekki borið saman svo mikilvæga möguleika. Nú veit enginn hver niðurstaðan yrði. Menn geta ekki borið þetta saman en það þyrfti að vera hægt.

Ég vil endurtaka að ekki er við það búandi inn í framtíðina að menn hagi sér eins og þeir hafa gert á undanförnum árum. Það er í raun brandari að leggja fram samgönguáætlanir annað hvert ár og fara aldrei eftir þeim. Jafnoft kemur ríkisstjórnin með átak í vegamálum og tvístrar öllu saman. Ég tel í sjálfu sér allt í lagi að menn taki ákvarðanir um átaksverkefni í vegamálum. En það er pólitísk ákvörðun að láta það átak raska öllu öðru. Það er enginn vandi að flýta framkvæmdum í þeirri framkvæmdaröð sem upp hefur verið sett. Endurskoðun á samgönguáætlunum ætti að hafa faglegri framgang en raun ber vitni.

En svona vilja menn hafa þetta í þeirri ríkisstjórn sem hefur setið undanfarin ár. Það er öruggt að á meðan hún situr verður engin breyting á þessu. Þetta hefur verið eitt aðalsportið gagnvart kjósendum, að sýna fram á að fara eigi að gera eitthvað á tilteknum svæðum og kaupa sér vinsældir með þessum hætti. Svo langt hafa menn gengið, t.d. fyrir síðustu kosningar, í að kaupa sér vinsældir að það var ekki nokkur leið að eyða öllum peningunum sem ætlaðir voru til vinsældakaupanna.

Ég hef svo sem ekki allt of mikla trú á, eins og þeir heyra sem á mig hlýða, að ríkisstjórnin sem nú situr hafi áhuga á að samþykkja tillögur eins og þá sem við erum að ræða hér. Uppáhaldsiðja þeirra í samgöngumálum hefur verið að gera átak í vegamálum öðru hvoru og koma hjartfólgnum verkefnum ríkisstjórnarinnar, ráðherranna eða meirihlutaflokkanna, eins og það vill nú oft verða, í verk á þeim tíma sem hentar.

Hæstv. forseti. En aldrei má maður missa vonina. Ég vona að menn fjalli faglega um þetta í samgn. Batnandi mönnum er best að lifa og aldrei skyldi maður missa vonina um að menn fari að stunda fagleg vinnubrögð. Orð eru til alls fyrst og hér hafa þau verið sett fram til þess að reyna að leiða starfið í samgöngumálum inn á faglegri brautir.