Þróunarsamvinna Íslands við önnur ríki

Föstudaginn 17. október 2003, kl. 17:32:57 (803)

2003-10-17 17:32:57# 130. lþ. 14.21 fundur 43. mál: #A þróunarsamvinna Íslands við önnur ríki# þál., Flm. ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni og hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir þátttökuna í umræðunni. Í tilefni þess sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði áðan um hin háleitu markmið þá get ég vissulega tekið undir það að þau eru háleit, en ég held líka, frú forseti, að við þurfum á þeim að halda vegna þess að við þurfum á þessu sviði eins og öðrum í stjórnmálunum að vita hvert við stefnum. Við tölum í þessum sal um að útrýma fátækt í heiminum, barnadauða og öðru. Við tölum um að jafna misskiptingu tekna hér á landi, að bæta kjör þeirra sem verst hafa kjörin. Við þurfum að hafa háleit markmið og þau þurfa að vera skýr og þau þurfa að vera pólitísk, frú forseti, og það eru þessi markmið með tilliti til kvenfrelsis, menntunar og mannréttinda, þarfarinnar á heilsugæslu, bólusetninga barna og því að vinna gegn útbreiðslu alnæmis, svo dæmi séu nefnd. Það eru vissulega margir fleiri sjúkdómar sem koma þar til greina eins og berklar og malaría eins og ég hef áður minnst á. Við getum alltaf lært af þeim sem hafa gert vel í kringum okkur. Engin ástæða er til þess að finna upp hjólið hér í þessu efni frekar en öðru og þess vegna m.a. er vísað til reynslu nágrannalandanna. Markmiðin eru vissulega háleit en þau eru líka verðug, frú forseti, og þau eru okkur samboðin.

Hins vegar er það þeirrar nefndar sem við flutningsmenn erum að leggja til að verði skipuð, að velja verkefnin, leiðirnar að markmiðunum. Og síðan hins háa Alþingis að leggja mat á það val og bæta við eða taka úr eftir því sem þörf þykir.

Það er nefnilega þannig að verkefnin geta verið svo mörg og leiðirnar svo margar. Og stundum er það þannig, sérstaklega í þessum flókna og mikilvæga málaflokki, að fólki fallast hreinlega hendur þegar það stendur frammi fyrir honum af því að þegar manni er sagt að 500.000 konur deyi á hverju ári af barnsburði, þá er það fyrsta sem maður hugsar: Hvað getum við gert í því? En það er svo einfalt og það er svo margt sem hægt er að gera í því. Og eitt af því t.d. er að auka menntun kvenna úti um allt.

Þess vegna skiptir máli að setja sér háleit markmið, velja verkefnin mjög vandlega og vanda þau, hafa þau frekar færri og betri og til lengri tíma en mörg og úti um allt. Þau geta verið margs konar og þau geta verið í samstarfi við mjög ólíka aðila eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti á.

Verkalýðshreyfingin hefur stigið mjög lofsamlegt skref í átt að samvinnu í þróunarlöndunum. Ísland getur líka verið í samvinnu við ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna beint og óbeint. Þar eru ótal tækifæri og svo má heldur ekki gleyma frjálsum félagasamtökum, bæði þeim sem starfa á Íslandi eins og Rauði krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar og annað slíkt og einnig erlendum hjálparsamtökum og stofnunum. Það eru endalausir möguleikar til þess að láta gott af sér leiða og vinna með fólki að hjálpa því til sjálfshjálpar. Verkefnið er hins vegar að velja nákvæmlega hvað það er sem við viljum einbeita okkur að á næstu missirum, árum og kannski áratug, setja niður áætlun og standa svo við hana, frú forseti.