Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:40:16 (808)

2003-10-28 13:40:16# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sú fyrirspurn sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson ber fram er fullkomlega eðlileg. En ég spyr hæstv. forseta: Hver gegnir embætti forsrh. nú?

(Forseti (GÁS): Samkvæmt þeim upplýsingum sem forseti hefur við höndina heitir sá Davíð Oddsson. Hann er ekki með fjarvistarleyfi hér í dag.)

Herra forseti. Þá er svo háttað um stjórnsýslu Íslands að enginn veit hvar starfandi forsrh. er niður kominn og enginn veit hver gegnir embætti forsrh. nú þegar hæstv. skipaður forsrh. Davíð Oddsson er erlendis. Þetta er ákaflega skrýtið en ég vænti þess að þeir tveir hæstv. ráðherrar sem hér stinga saman nefjum á ráðherrabekk kunni að upplýsa hver það er sem fer með forsætisráðherravald nú um stundir.

Herra forseti. Það er fullkomlega eðlilegt að Íslendingar sem fullvalda og sjálfstæð þjóð taki undir einróma óskir færeyska Lögþingsins. Við skulum ekki gleyma því að við Íslendingar háðum sjálfir sjálfstæðisbaráttu okkar. Þá leituðum við eftir fulltingi annarra þjóða, grannþjóða og frændþjóða við hverju nýju skrefi sem við tókum í sjálfstæðisbaráttu okkar.

Færeyingar hafa einsett sér að verða fullvalda ríki og þeir líta á það sem hluta af sjálfstæðisbaráttu sinni að taka sæti í Norðurlandaráði meðal helstu frændþjóða sinna. Færeyingar hafa alla burði til þess að verða fullvalda þjóð. Þeir hafa gróna innviði, þeir hafa öfluga stjórnsýslu, þeir hafa ríka auðlegð náttúruauðlinda og þeir hafa sjálfstæða menningararfleifð. Þeir telja sjálfir að kominn sé tími til að þeir stigi þetta skref. Þegar færeyska Lögþingið samþykkir svona ósk einróma, þá er ákaflega erfitt fyrir Íslendinga að standa álengdar hjá. Þess vegna segi ég að það er fullkomlega eðlilegt að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson inni eftir því hvar þessi ósk hefur verið rædd. Og hefur ríkisstjórnin farið eftir þeim lögum sem gilda um meiri háttar utanríkismál og leitað samráðs við utanrmn.?

Ég sem einn af þegnum lítillar sjálfstæðrar þjóðar lít á það sem meiri háttar utanríkismál þegar svona kemur upp, þegar um er að tefla fullveldi nánustu frændþjóðar okkar.