Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:47:58 (813)

2003-10-28 13:47:58# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hún var óskaplega skrýtin, þessi ræða sem hæstv. sjútvrh. flutti hér þar sem hann fór nokkrum orðum um það að sérstaklega þyrfti að taka tillit til þess hvað stæði í stjórnarskrá ríkja Norðurlandanna um það hvernig Norðurlandaráð skyldi skipað. Það er algjörlega nýtt í umræðunni.

Ég skil hæstv. ráðherra hins vegar vel, að hann skuli fylgja forsrh. sínum í þessari umræðu og taka undir það sem hann segir, a.m.k. það sem hefur borist okkur hingað.

Þar sem hæstv. landbrh. er í salnum og gegnir störfum hæstv. utanrrh. þætti mér mikilvægt og gott að það kæmi fram hér í þessari umræðu hvort Framsfl. sé á sömu línu og Sjálfstfl. í þessu máli og hvort hann styðji það að við leggjum frændum okkar ekki lið í því máli sem þeir báru upp á þingi Norðurlandaráðs. Ég held að það sé mikilvægt að fá þessa afstöðu fram því að ég er þess fullviss að menn munu láta á það reyna hver afstaða þingsins er til þessarar beiðni sem frændþjóð okkar hér, Færeyingar, hefur sett fram á Norðurlandaráðsþinginu.

Mér þætti vænt um það, virðulegi forseti, ef hæstv. landbrh., starfandi utanrrh. og þá næstum því forsrh., gæti gert grein fyrir því hver væri afstaða Framsfl. til þessa máls.