Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:49:38 (814)

2003-10-28 13:49:38# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það er hárrétt sem hér hefur komið fram, hér er um virkilega stórt og mikið mál að ræða og hér er mál sem er sannarlega ástæða til þess að Alþingi fjalli um. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að ekkert slíkt erindi hefur borist frá Lögþingi Færeyinga.

Það er líka rétt að draga það fram að enn hafa Færeyingar ekki tekið þá stóru pólitísku ákvörðun að stíga sjálfstæðisskrefið til fulls. Um það eru miklar deilur enn þá í Færeyjum. Persónulega trúi ég og vona að Færeyingar, grannar okkar í austri, muni stíga það skref en það er sjálfsákvörðun þeirra að stíga það. Ég efast ekki um að á hinu háa Alþingi Íslendinga sé fullur stuðningur við viðleitni Færeyinga til þess að ganga þá leið, enda frændur okkar og vinir til margra alda.

Það er líka vert að draga það fram hér og árétta að ekkert slíkt erindi hefur borist til Alþingis Íslendinga frá Lögþingi Færeyinga þannig að út frá þeim forsendum hefur Alþingi ekki haft tækifæri til þess að ræða málið. Ég hygg að með sama hætti hafi málið borið að á þingi Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir og þess vegna er í rauninni ekki hægt að taka afgerandi afstöðu hér og nú, enda hefur málið ekki fengið lýðræðislega umfjöllun. --- Hér talar sá sem kannski er færeyskastur af hv. þingmönnum og Færeyjar eru hans annað föðurland.