Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:53:14 (816)

2003-10-28 13:53:14# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil um þetta mál segja að það er auðvitað erfitt að ræða það hér fyrr en þeir eru komnir heim, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., sem hafa orðið vitni að þeim átökum sem eru milli Dana og Færeyinga. Málið hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn og eins og hér hefur komið fram hefur ekkert erindi borist og ég get tekið undir þá skoðun að það er mjög erfitt fyrir Ísland að setja sig í deilur þessara frændþjóða. Þegar við börðumst fyrir okkar frelsi, Íslendingar, var það í gegnum gott samstarf við Danmörku og ég hygg að það sé mikilvægt á meðan Færeyingar berjast fyrir sínu frelsi að aðrar þjóðir gangi ekki inn í þá samninga og þær viðræður eða taki afstöðu þegar deilur ríkja þeirra á milli. Mér finnst heiðarleg afstaða að blanda sér ekki í þær deilur og reyna heldur að rækta vinskap við báðar þessar þjóðir. Þær eru báðar okkur nærri, ekkert síður Danmörk en Færeyjar, ekkert síður Færeyjar en Danmörk. Þær eru báðar okkur kærkomnar og við styðjum þær til frelsis og góðra verka.

En bíðum þeirrar stundar að þeir menn sem fara með þessi mál muni ræða þau í ríkisstjórn hér á hinu háa Alþingi eru heim komnir.