Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:57:10 (819)

2003-10-28 13:57:10# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er mjög ósammála hæstv. starfandi utanrrh. um það að við eigum að standa til hliðar við það sem hann kallar deilur tveggja vina- og frændþjóða. Það er einfaldlega engin þjóð sem kallar til jafnnáins skyldleika við okkur og Færeyingar. Við erum miklu skyldari Færeyingum en Dönum og auðvitað studdu Færeyingar okkur þegar við áttum sjálf í harðvítugri sjálfstæðisbaráttu gagnvart Dönum.

Það sem ræður úrslitum um stuðning okkar er það hvað Færeyingar sjálfir vilja. Um hvað er samstaða meðal Færeyinga? Það hefur komið fram að það var einróma samstaða á Lögþinginu um þessa umsókn. Þess vegna tel ég einboðið að Íslendingar styðji það mál.

Hér talaði sá sem er færeyskastur allra okkar þingmanna, hv. þm. Hjálmar Árnason, og hann sagði að þetta væri stórt mál, kallaði þetta meiri háttar mál. Ég lít málið sömu augum. Þar af leiðir hlýt ég að óska eftir því við hv. þingmann og aðra þingmenn stjórnarliðsins að þeir styðji þá ósk sem fram hefur komið, að þetta mál verði tekið upp og rætt í utanrmn. Lögum samkvæmt á ríkisstjórn Íslands að hafa samráð við utanrmn. um meiri háttar mál. Við erum sammála um það, virðist vera, í þessum sal að þetta er meiri háttar mál.

Það er kannski ekki í mínum verkahring að bera blak af hæstv. ríkisstjórn. Ég veit ekki hvernig þetta mál kom upp en aðdragandinn var kannski ekki mikill og það kann að vera að það hafi verið umhendis að ræða það í ríkisstjórn og taka upp fyrir fram í utanrmn. Gott og vel, ég get fallist á slík rök en ég tel hins vegar að eftir þessar umræður liggi fyrir að það sé fullur vilji meðal þingmanna til að ræða þetta mál í utanrmn. Ég ítreka það að við eigum ekki að láta afstöðu Dana endilega ráða afstöðu okkar í framtíðinni heldur það sem er einróma samstaða um í Færeyjum. Við hljótum þá að taka höndum saman við vini okkar, frændur og frænkur, sem þar búa.