Stuðningur við sjálfstæði Færeyja

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 13:59:25 (820)

2003-10-28 13:59:25# 130. lþ. 15.91 fundur 98#B stuðningur við sjálfstæði Færeyja# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að málið, að því er ég best veit, bar þannig að að það vannst enginn tími til þess að ræða það í ríkisstjórn eða hv. utanrmn. áður en farið var til Norðurlandaráðsþingsins. Þar af leiðandi skýrist ágætlega að málið var einfaldlega ekki rætt.

[14:00]

Það sem ég var hins vegar að reyna að gera í fyrri ræðu minni var að skýra afstöðu forsrh. því um það var beðið, en það leiðir af eðli þessa máls og eðli þessa samstarfs að ekki er hægt að ganga fram með einhverjum hamagangi. Þarna er hefð fyrir því að hlutirnir eru unnir í samstarfi og niðurstöðurnar eru samhljóða og það hjálpar ekki Færeyingum, held ég, að við köstum stríðshanskanum í þessu máli gagnvart Dönum til þess að aðstoða þá á þennan hátt.

Í þriðja lagi, herra forseti, vil ég minnast á ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Það er út af fyrir sig allt í lagi að hv. þingmenn komi hér upp og segi álit sitt á ræðum fyrri ræðumanna í umræðunni. Við þolum það alveg. En það er kannski ekkert sérstaklega traustvekjandi fyrir hv. þingmenn ef þeir hins vegar í sömu ræðu verða berir að því að hafa ekki fylgst með umræðunni um málið sem verið er að ræða um. Því það hefur einmitt komið fram í umræðunni hjá forsætisráðherra Dana að hann telji að aðild Færeyinga, eins og tengslum þeirra við Danmörku er nú háttað, standist ekki stjórnarskrá Danmerkur. Hv. þm. upplýsti það í ræðu sinni að hann hefði í fyrsta skipti heyrt minnst á þennan þátt málsins í ræðu minni fyrr í dag þannig að þetta er fáfræði hjá þingmanninum sem telur sig vera þess umkominn að fella dóma um ræður annarra ræðumanna í umræðunni.