Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 28. október 2003, kl. 14:06:51 (821)

2003-10-28 14:06:51# 130. lþ. 15.10 fundur 18. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (félagsgjöld til stéttarfélags) frv., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir örlitlu frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Eins og margoft hefur komið til umræðu í hinum góðu sölum Alþingis, þá úir og grúir af gloppum og ranglæti í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, herra forseti. Með þessu frv. erum við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar að reyna að stoppa upp í eitt gatið þar sem ranglætið sytrar út um.

Þetta frv. lætur lítið yfir sér en það bætir samt sem áður úr verulegum galla á núgildandi lögum. Samkvæmt frv. er verið að leita heimildar Alþingis til þess að félagsgjöld sem launamaður hefur greitt stéttarfélagi samkvæmt kjarasamningi eða samþykkt stéttarfélags verði frádráttarbært frá skattstofni. Við fyrstu sýn, herra forseti, kann það að virka nokkuð umhendis að fara fram á slíka heimild. Hér er hins vegar um jafnræði að tefla. Staðan er þannig að yfirskattanefnd hefur markað þá stefnu að félagsgjöld sem fyrirtæki greiða til Samtaka atvinnurekenda eru frádráttarbær frá tekjuskattsstofni. Félagsgjöld sem launþegar greiða til stéttarfélaga sinna hafa hins vegar ekki fengið náð yfirskattanefndar til frádráttar.

Við sem flytjum þetta mál teljum að það séu engin rök fyrir þessu misræmi. Þetta felur í sér ranglæti, bæði gegn launamönnum og líka verkalýðshreyfingunni og ég held að það sé enginn vafi á því að þessi staða stenst a.m.k. ekki þann jafnræðisanda sem lög og stjórnarskrá hafa yfir sér. Ég er ekki að halda því fram, herra forseti, að þessi lög eins og þau eru í gildi núna brjóti stjórnarskrána en ég held því hins vegar fram að þau feli í sér ranglæti og ég held því líka fram að þau séu ekki samkvæmt þeim jafnréttis- og jafnræðisanda sem er núna að finna í stjórnarskránni. Við fluttum margar ræður um jafnræði þegar við tókum okkur saman um það í tilefni af hálfrar aldar afmæli lýðveldisins 1994 og samþykktum nýjan kafla í stjórnarskrána um mannréttindi og jafnræði. Það voru haldnar fjálgar ræður um það á hinu háa Alþingi að öllum lögum þyrfti að breyta í anda þessa ákvæðis og það er það sem við erum að reyna að gera hér.

Ég mundi ekki, herra forseti, koma hingað og flytja þetta frv. ef staðan væri þannig að fyrirtækjum væri meinað að draga þau gjöld sem þau greiða til Samtaka atvinnurekenda frá tekjuskattsstofni, en þeim er ekki meinað það, þeim er leyft það. Og það er þannig að á vinnumarkaðnum höfum við tvo aðila, Samtök atvinnurekenda og verkalýðshreyfinguna, og hvaða réttlæti og hvaða jafnræði felst í því að einungis öðrum aðilanum er með þessum hætti gert kleift að draga frá þann kostnað sem hlýst af hagsmunabaráttu hans? Það er auðvitað ekkert réttlæti í því. Það hlýtur að vera, herra forseti, af því að hér stendur í dyragættinni einn af þeim mönnum sem stóðu í fylkingarbrjósti fyrir verkalýðshreyfingunni á sínum tíma, stundum með sólglit í auga og saltstork í hári, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að hann sé að búa sig undir það að koma hér og taka til máls og styðja okkur þingmenn Samfylkingarinnar í þessu máli.

Þetta er réttlætismál, sagði ég, herra forseti. Ekki síst finnst mér að stjórnarliðar eigi að taka með jákvæðum hætti á þessu máli þegar horft er til þess átaks sem verkalýðshreyfingin hefur staðið fyrir á síðustu árum til þess að halda stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það hafi orðið kaflaskil í efnahagssögu þessarar þjóðar fyrir tveimur árum þegar verkalýðshreyfingin barðist fyrir því að opinberar hækkanir yrðu brotnar á bak aftur þegar gjörvöll forusta ASÍ, og raunar að hluta til BSRB, fór fylktu liði um landið og talaði við sveitarstjórnir og fyrirtæki og knúði til baka verðhækkanir sem hefðu, ef þær hefðu náð að verka, leitt til þess að hin svokölluðu rauðu strik kjarasamninganna hefðu brostið. Hér hefði þá hrunið á sjálfkrafa vítahringur hækkana launa og verðlags og efnahagsstöðugleikinn hefði verið fyrir bí, hér hefði komið sá spírall sem við þekkjum frá liðnum árum sem hefði leitt stöðugleikann og efnahagslíf þessarar þjóðar út í öngstræti. Það var fyrst og fremst verkalýðshreyfingin sem með samstilltu átaki innan sinna raða fékk bæði stjórnarlið og stjórnarandstöðu og fyrirtækin í landinu til þess að taka þátt í þessu átaki. Og þegar ég segi að þarna hafi orðið söguleg kaflaskipti, vísa ég til þess að síðan hefur allt legið upp á við í efnahagsmálum þjóðarinnar og núna blasir það við að ef sú samstaða heldur sem þá tókst fyrir forustu verkalýðshreyfingarinnar, þá er líklegt að við séum að sigla inn í jákvæðara efnahagsskeið hér á Íslandi og hagsælla en við höfum e.t.v. nokkru sinni séð. Það er mögulegt að á næstu árum séum við að sigla inn í góðæri sem skapar okkur meiri verðmæti en Íslendingar hafa áður staðið frammi fyrir. Og ég er að segja það, herra forseti, að hvatinn að þessu, þeir sem hófu þetta skeið, voru þeir sem voru í forustu verkalýðshreyfingarinnar. Og hví held ég þessa tölu um þátt þeirra í þessari stöðu? Jú, vegna þess að mér finnst það ranglátt ef stjórnarliðið ætlar að standa gegn því að þetta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar nái fram að ganga. Mér finnst það ranglátt í ljósi þess að stjórnarliðið hefur tekið þátt í því að láta annan aðila vinnumarkaðarins njóta þess sem það hefur meinað verkalýðshreyfingunni að fá líka í sinn hlut.

Mér finnst þetta ranglátt þegar ég horfi til þess að það var verkalýðshreyfingin sem í reynd tók að sér að vinna þau verk sem ríkisstjórnin gat ekki. Nú má auðvitað segja eins og einn stjórnarliði sagði í umræðum þegar við ræddum svipuð mál: Það er alveg sama hvaðan gott kemur. En það er ekki alveg sama hvaðan gott kemur. Menn eiga að fá að njóta verka sinna og ég er þeirrar skoðunar að frumburðarréttinn að þeirri hagsæld sem við höfum notið á síðustu fjórum missirum og munum væntanlega njóta á næstu missirum megi rekja til verkalýðshreyfingarinnar.

Hér eru þingmenn Samfylkingarinnar, sem líta á sig sem hið pólitíska afl verkalýðshreyfingarinnar í þessum sölum, að flytja mál sem varðar einstaka launamenn töluvert miklu og það sem skiptir mestu er að þetta er réttlætismál. Það er ekki hægt að þola það ranglæti að einungis fyrirtækin fái að draga sín félagsgjöld frá tekjuskatti en ekki almennir launamenn. Því veit ég að réttlætistaugin sem þrátt fyrir allt bærist í brjósti allra hér í þessum sölum mun hrærast þegar menn lesa þetta mál og skoða það og skynja réttlætið sem í því felst.